Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins hefur verið virk í störfum sínum að undanförnu og er með mörg verkefni í undirbúningi sem hún hyggst kynna á lokasprettinum fyrir kosningar.
RÚV flutti nýlega frétt af því að flokkurinn hafi látið búa til nafnlaus myndbönd með niðrandi áróðri um stjórnarandstöðuflokkana, einkum VG og Pírata. Þessum óhróðri er dreift á Facebook. RÚV hafði af þessu tilefni viðtal við prófessor í stjórnmálafræði sem sagði að með þessu væri farið niður á nýtt og áður óþekkt plan í stjórnmálabaráttu hér á landi. Hann gat ekki dulið hneykslun sína. Sjá meðf. frétt RÚV:
http://www.ruv.is/frett/nafnlaus-facebook-arodur-ny-throun-a-islandi
Sjálfstæðisflokknum þótti svo mikið liggja við vegna þessarar starfsemi að Andrés Magnússon var fluttur sérstaklega heim frá Englandi þar sem hann er búsettur, samkvæmt áræðanlegum heimildum Dagfara. Andrés er margreyndur í undirróðursstarfi hjá flokknum og er að auki náfrændi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, Þórðar Þórðarsonar. Andrés þykir mátulega ósvífinn til að taka þátt í skrímsladeildarstarfi flokksins á lokametrunum fyrir kosningar.
Með Andrési er talið að starfi að þessum verkefnum þeir Óli Björn Kárason varaþingmaður, Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga og Stefán Einar Stefánsson frá Morgunblaðinu.
Athygli vakti í síðustu viku þegar Óttar Guðjónsson stormaði fram á ritvöllinn og birti grein á miðopnu Morgunblaðsins sem átti að kasta rýrð á formann Viðreisnar vegna hlutabréfaviðskipta. Greininni var svarað af Benedikt sjálfum og einnig kom fram yfirlýsing frá FME sem sýndi að umrædd viðskipti hefðu verið fullkomlega lögleg og í samræmi við allar reglur. Við það játaði Óttar mistök sín og bað Benedikt Jóhannesson afsökunar á frumhlaupi sínu. Hér var um algert vindhögg skrímsladeildarinnar að ræða en greinin hafði verið í smíðum um nokkurt skeið og átti að vera “bomba” sem því miður sprakk í andlit höfundarins sjálfs.
Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, misnotaði með þessu starfsstöðu sína sem forsvarsmaður þessa opinbera lánasjóðs. Dagfari hefur heyrt að beðið sé viðbragða stjórnar sjóðsins sem hlýtur að veita honum opinbera áminningu hið minnsta eða leysa hann frá störfum. Málið er mjög alvarlegt. Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri á Skagaströnd, er formaður Lánasjóðs sveitarfélaga. Talið er að hann tjái sig um málið fyrr en síðar.
Þó svo að mál þetta hafi verið skýrt til fullnustu, reynir Morgunblaðið að halda því vakandi með einkennilegum “fréttaflutningi” af því að ekki hafi náðst í tiltekna aðila. Heldur lágkúrulegt hjá þeim. Stefán Einar Stefánsson, skrímsladeildarmaður, sinnir þessum skrifum að sjálfsögðu.
Beðið er eftir næstu “bombum” skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins um pólitíska keppinauta. Vonandi springa þær ekki í andlitið á þeim aftur.