Hin stórundarlega saga braggans í Nauthólsvík heldur áfram. Síðustu tvö ár hafa fjölmiðlar ítrekað fjallað um hvert hneykslismálið á fætur öðru tengdu bragganum. Hver man til dæmis ekki eftir höfundaréttarvörðu stráunum frá Danmörku? Kostnaður fór langt fram úr áætlun en upphaflegt kostnaðarmat á verkefninu var 158 milljónir en heildarkostnaður fór upp í 415 milljónir, eða 257 milljónum fram úr kostnaðaráætlun. Þá voru ýmsar reglugerðir brotnar. Nú er búið að skella í lás á bragganum og skipta á um rekstraraðila.
Háskólinn í Reykjavík leigir braggann af Reykjavíkurborg fyrir 694 þúsund krónur á mánuði eða 8,3 milljónir á ári, sem þýðir að það tekur að minnsta kosti hálfa öld til að greiða upp húsnæðið. Upphæðin er án vaxtagjalda.
Enginn á svæðinu og búið að loka símanum
Daði Agnarsson tók braggann á leigu og fékk veitingastaðurinn nafnið Braginn Bar & Bistro. Í samtali við Stundina í október þegar fréttaflutningur af framúrkeyrslu stóð sem hæst sagði Daði að umfjöllunin hefði ekki haft nein áhrif á reksturinn. Daði sagði að það hefði verið þónokkuð mikið að gera og sagði síðan á öðrum stað:
„Kosturinn við umræðuna er þó sá að nú vita allir hvar Bragginn er.“
Nú er sú staða komin upp að búið er að skella í lás og ekki hræðu þar að sjá. Búið er að loka símanum og þá er Facebook-síða staðarins horfin. Þá virkar heimasíðan ekki heldur. Samkvæmt Daða störfuðu 18 manns á bragganum. Það upplýsti Daði í pistli á Facebook. Þar sakaði hann borgarfulltrúa um að koma óorði á braggann. Hann sagði:
„Óvægin umræða um vinnustaðinn þeirra hefur gert það að verkum að þau þurfa að fara að afsaka staðinn, sinn eigin vinnustað. Þetta er fólk sem þarf að svara fyrir mistök annara, svara fyrir óábyrga umræðu stjórnmálamanna.“
Daði Agnarsson rak einnig Mýrin mathús á BSÍ, sem lokaði fyrir rúmu ári síðan. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í Daða við vinnslu fréttarinnar.
Stráin voru á sínum stað og virtust hafa það bærilegt
Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík sagði í samtali við Hringbraut að HR væri búið að semja við nýjan rekstraraðila. Ingunn sagði:
„Hann fær nokkra daga til að undirbúa sig.“
Ingunn neitaði að svara hvort veitingastaðurinn væri gjaldþrota og vildi fá spurningar sendar í tölvupósti og neitaði síðan að svara frekari spurningum. Þá ræddi Hringbraut við Eirík Sigurðsson, forstöðumann markaðs og samskiptasviðs HR. Hann neitaði að svara spurningum blaðamanns á þessum tíma dags.