Veður ræður akri. Þær aðstæður eru nú að skapast að góð og gild rök standa til þess að setja spurninguna um fulla aðild að Evrópusambandinu aftur á dagskrá. Umræður um þriðja orkupakkann hafa opnað dyrnar fyrir þetta mál upp á gátt.
Ritstjórar Morgunblaðsins hafa verið ódeigir í baráttunni gegn þriðja orkupakkanum. Fyrir vikið er Sjálfstæðisflokkurinn klofinn í tvær fylkingar. En rætur þessarar andstöðu virðast ekki síst liggja í því að ritstjórarnir sjá betur en margir aðrir að samtímis og menn samþykkja prinsippin í þessu máli eru þeir í raun að viðurkenna þau prinsipp sem full aðild að Evrópusambandinu er reist á.
Sömu prinsipp rökin
Þetta þýðir að um leið og menn draga fram rökin fyrir aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins og innleiðingu orkureglna hans veikjast prinsipp rökin gegn fullri aðild verulega. Álitamál varðandi fulla aðild velta þá meir á tæknilegum álitaefnum. Nefna má í því sambandi að á grundvelli reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika fá engin erlend fiskiskip veiðirétt á íslensku hafsvæði með fullri aðild þótt öðru sé stundum haldið fram.
Í þessu ljósi er afstaða ritstjóra Morgunblaðsins skiljanleg. Andstaða þeirra við fulla aðild er einlæg og þeir vilja þar af leiðandi ekki styðja neitt það mál sem opnað getur á hana. En þingflokkur sjálfstæðismanna ákvað í vor að hafa þessi ráð að engu eftir tveggja áratuga algjöra þögn um mikilvægi innri markaðar Evrópusambandsins fyrir Ísland.
Þar af leiðir að umræðan um fulla aðild er nú miklu opnari en áður var. Mikilvægt er að Evrópusinnar hagnýti sér þessa opnun.
Þrjátíu ára gamlar forsendur
EFTA ríkin hófu viðræður um aðild að innri markaði Evrópusambandsins fyrir fall Berlínarmúrsins. Engin stór ákvörðun um þátttöku Íslands í fjölþjóðasamvinnu hefur því verið tekin eftir að kalda stríðinu lauk eða í þrjá áratugi, nema um Schengen. Heimsmyndin er aftur á móti gjörbreytt og því löngu kominn tími á að endurmeta hvernig við tryggjum best efnahagslega hagsmuni og pólitískt skjól í fjölþjóðasamvinnu.
Þeir kraftar sem togast á í heiminum eru nú fleiri og margslungnari en í kalda stríðinu. Sá hugmyndafræðilegi grundvöllur sem liggur að baki þeim togkröftum er einnig fjölbreyttari. Allt er þetta rökstuðningur fyrir því að við metum stöðu landsins í fjölþjóðasamvinnu í ljósi nýrra aðstæðna og meir með framtíðina en fortíðina í huga.
Ísland hefur tekið þátt í gjaldmiðlasamstarfi þegar þess hefur verið kostur
Ísland hefur alltaf kappkostað að taka þátt í fjölþjóðlegu gjaldmiðlasamstarfi þegar þess hefur verið kostur. Þannig kváðu fullveldislögin á um aðild að Norræna myntbandalaginu, sem reyndar leystist upp skömmu síðar. En víst er að Norræna myntbandalagið átti snaran þátt í atvinnubyltingunni sem varð á fyrsta áratug síðustu aldar.
Árangur Viðreisnarstjórnarinnar á sjöunda áratugnum byggðist meðal annars á aðild Íslands að Bretton Woods gjaldmiðlasamstarfinu. En því miður fyrir Ísland og fleiri lönd brutu Bandaríkin það upp í byrjun fyrstu olíukreppunnar.
Þörfin fyrir gjaldmiðilssamstarf er nú brýnni en oft áður. Sá smái gjaldmiðill, sem við notum, hefur leitt til þess að engri ríkisstjórn hefur tekist að tryggja nægjanlegan stöðugleika í hagkerfinu. Hann er líka undirrót vaxandi eigna misskiptingar þar sem sumir geta hlaupið inn og út úr krónhagkerfinu en aðrir ekki. Launafólk og minni fyrirtæki standa verr að vígi en ella fyrir þær sakir. Gjaldmiðilssamstarf snýst því einnig um félagslegt réttlæti.
Þessi grundvallaratriði þarf nú að skerpa í þeirri umræðu sem fyrir höndum er.
Jákvæð gerjun í evrópskri pólitík
Menn spáðu því eftir fjármálakreppuna að evran myndi falla innan tveggja ára. Það hefur ekki gerst.
Kosningar til Evrópuþingsins varpa líka ljósi á þá staðreynd að hrakspárnar um upplausn Evrópu í kjölfar Brexit hafa ekki ræst. Brexit hugmyndafræðin er nú einangruð við Bretland og á helst skjól hjá Trump.
Staðreyndin er sú að þátttaka fer nú vaxandi í kosningum til Evrópuþingsins eins og í ljós kom í síðustu viku. Stuðningur almennings í aðildarríkjunum við Evrópusambandið og aðild að því hefur aldrei verið meiri.
Frjálslyndum flokkum óx verulega ásmeginn í Evrópuþingskosningunum. Það er sérstakt fagnaðarefni. Græningjar unnu einnig á. Þjóðernispopúlistar, sem sumir hverjir eru í tengslum við Rússa, bættu einnig stöðu sína. En sú afgerandi og mjög svo athyglisverða breyting hefur orðið á afstöðu þeirra að þeir berjast nú fyrir umbótum innan frá en hafa lagt andstöðu við aðild á hilluna, nema Brexit flokkurinn.
Sú staðreynd að Sósíaldemókratar og Kristilegir hægrimenn misstu meirihlutann þýðir að frjálslynd viðhorf gætu fengið meiri áhrif.
Allt sýnir þetta umrót og gerjun í evrópskri pólitík. En umfram allt annað ber þetta vott um jákvæða þróun.
Sáttatilraunir gætu þrengt Sjálfstæðisflokkinn aftur
Þegar þriðji orkupakkinn verður samþykktur á Alþingi má fastlega reikna með að allt kapp verði lagt á að sættir takist á ný milli þingflokks sjálfstæðismanna og Morgunblaðsins. Hætta er á að frjálslyndari armur flokksins, sem hefur blómstrað að undanförnu með varaformann og ritara flokksins í fremstu víglínu, verði knúinn til þess að draga í land í þeim tilgangi. Það á einnig við um utanríkisráðherrann sem staðið hefur sig einstaklega vel í umræðunni.
Þetta hugsanlega sáttaferli innan stærsta flokks landsins knýr líka á um að hamra járnið meðan það er heitt.
Aðildarviðræður verða ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Hana þarf að undirbúa vel með málefnalegum rökum og í góðum tíma.