Mislingar á leikskólanum

Þegar ég sótti dóttur mína á leikskólann fyrir 2-3 vikum síðan, í Kaupmannahöfn þar sem við búum, blasti við mér eftirfarandi tilkynning við innganginn: „Það hefur greinst barn með mislinga á leikskólanum. Vinsamlegast fylgist vel með einkennum ef þið eigið óbólusett börn.“ Sem betur fer eru börnin mín bólusett. Þessi tilkynning vakti samt sem áður smá óhug hjá mér og setti hlutina í annað samhengi. Skyndilega var vandamálið ekki svo fjarlægt. Ekki bara fréttir eða stöðufærslur á Facebook um börn út í heimi sem eru fárveik eða látin af völdum mislinga eða kíghósta. Barn á leikskóla dóttur minnar hafði greinst með hættulegan smitsjúkdóm.


Bólusetningar og mikilvægi þeirra hafa verið í umræðunni síðastliðnar vikur og ekki að ástæðulausu. Það er því miður of hátt hlutfall fólks sem velur að bólusetja ekki börnin sín, að vel ígrunduðu máli að það telur. Það er spurning hvort það sé réttlætanlegt að foreldrar fái að taka þessa ákvörðun fyrir börnin sín. Grunnbólusetningar má jafnvel flokka undir sjálfsögð mannréttindi hvers barns.


Efinn um gildi bólusetninga


Af hverju eru enn svona margir sem hafa efasemdir um bólusetningar og sérstaklega gagnvart MMR-bóluefninu sem ver okkur gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (e. Measels, Mumps, Rubella)? Eru það samsæriskenningarnar um lyfjarisana eða fölsuðu vísindagreinarnar um tengsl MMR-bóluefnisins við einhverfu? Er það vegna þess að áherslan á lífrænt ræktað, náttúrúlegt og hinn hreina lífstíl er svo mikil og þar flokkist bólusetningar sem eitur? Eða er það kannski vegna þess að þeir sjúkdómar sem bólusett er fyrir hafa ekki verið vandamál fyrir okkar kynslóð á okkar heimaslóðum? Ástæðan sé sú að við sjáum þá ekki með sömu augum og þeir sem eldri eru? Er það útbreidd trú fólks að þetta séu ekkert hættulegir sjúkdómar? Eru bólusetningarnar kannski bara miklu hættulegri? Niðurstaðan hlýtur að vera sú að alvarleiki þessara sjúkdóma hefur fallið í gleymskunnar dá. Ef fólk hefði sjálft upplifað þessa sjúkdóma á sama hátt og fyrri kynslóðir, og reyndar fólk í mörgum vanþróaðri ríkjum heimsins enn í dag, væri efinn í garð bólusetninga sennilega ekki jafn mikill.


Mig langar að reifa í stuttu máli hvaða upplýsingar sagan hefur að geyma um tvo af skæðustu smitsjúkdómunum og hvernig bóluefnin hafa breytt sögunni.


Þegar talað er um mikilvægustu áfangana í þróun læknavísindanna í gegnum tíðina eru flestir sammála um að þar beri að nefna uppgötvun erfða og erfðaefnis, bólusetningar, uppgötvun sýkla og penisillíns, svæfingar og notkun röntgengeisla. Þessar uppgötvanir, meðal annarra, lögðu grunninn að hraðri þróun læknisfræðinnar á 20. og 21. öldinni. Bólusetningar eru iðulega efst á listum yfir þessar mikilvægu uppgötvanir og þá sérstaklega bóluefnin gegn bólusótt/stórubólu (e. Smallpox) og mislingum.


Bólusótt


Saga bólusetninga nær aftur til ársins 1796 þegar enski læknirinn Edward Jenner bólusetti átta ára dreng gegn bólusótt. Í nautgripum er til sjúkdómurinn kúabóla sem orsakast af veiru sem er náskyld þeirri sem veldur bólusótt. Manneskjur geta líka smitast af kúabólu og var það algengt meðal mjaltakvenna á þessum tíma. Bændur höfðu tekið eftir því að þeir sem höfðu smitast af kúabólu virtust ónæmir fyrir bólusótt. Jenner rannsakaði þetta samband nánar og varð sannfærður um að kúabólan veitti vörn gegn bólusótt.


Um það bil 20-60% fullorðinna sem smituðust af bólusótt létust og yfir 80% barna. Stór hluti smitaðra fékk varanleg mein eins og t.d. blindu og ör í andliti og húð.


Því er haldið fram að bólusótt hafi herjað á mannkynið frá því árið 10.000 fyrir Krist. Þetta er skæðasti sjúkdómur mannkynssögunnar en talið er að 500 milljónir manna hafi látið í lægra haldi fyrir bólunni. Heimildir herma að um 400 þúsund hafi látist árlega af völdum bólusóttar á 18. öld. Snemma á sjötta áratug 19. aldar er talið að 50 milljónir manna hafi smitast árlega.


Í kjölfar bólusetningarátaks Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) féll tala smitaðra niður í 10-15 milljónir manna árið 1967 og lækkaði hratt eftir það. Síðasta tilfelli bólusóttar var árið 1979 og 1980 var tilkynnt að sjúkdómnum hefði verið útrýmt. Nú er opinberlega vitað um veiruna á tveimur rannsóknarstofum í heiminum, í Bandaríkjunum og í Rússlandi. Bólusótt er einungis annar tveggja smitsjúkdóma sem hefur verið útrýmt.


Mislingar


Annar smitsjúkdómur sem hefur verið skæður í gegnum söguna er mislingar. Sýkingin var algeng hjá börnum og dró árlega milljónir til dauða á heimsvísu áður en bóluefni kom fram á sjónarsviðið árið 1963. Eftir að einstaklingur sýkist af mislingum tekur við um tíu daga meðgöngutími. Í kjölfarið koma fram kveflík einkenni, hiti og jafnvel augneinkenni. Eftir þessi fyrirboðaeinkenni koma fram rauðir upphleyptir flekkir, fyrst í andliti og fyrir aftan eyrun en dreifa sér síðan um búkinn og útlimi. Þessi útbrot standa yfir í 3-5 daga og hverfa í sömu röð og þau komu fram. Ef engin eftirmál verða vegna sýkingarinnar hefst afturbati oftast rétt eftir að útbrotin koma fram. Ónæmisbæling sem verður í kjölfar sýkingarinnar verður þó til þess að margir eru lengi að jafna sig og hætt er við ýmsum tækifærissýkingum. Hún stendur yfir í nokkrar vikur og jafnvel mánuði. Sumir fá alvarlega og jafnvel banvæna fylgikvilla eins og skæðar lungnabólgur og miðtaugakerfissýkingar (Læknablaðið, 4. tbl., 100. árg., 2014).


Mislingar eru gífurlega smitandi sjúkdómur og smitar hver einstaklingur með mislinga að meðaltali 15-25 aðra. Þetta kallast grunnútbreiðslutala. Til samanburðar er grunnútbreiðslutala fyrir ebólu 1,5-2,5 og fyrir inflúensu 2-3. Dánartíðni mislinga er hæst hjá börnum undir fimm ára aldri.


Fyrir tíma bólusetninga bárust mislingar sjaldan til Íslands en þegar það gerðist urðu hér stórir og mannskæðir faraldrar. Tveir stærstu mislingafaraldrar sem vitað er um voru árin 1846 og 1882. Árið 1846 létust um það bil 1.600-2.000 manns úr mislingum (íbúafjöldi var 58.667 í upphafi ársins) og árið 1882 létust um það bil 1.300 manns. Hluti þjóðarinnar var ónæmur eftir faraldurinn 1846. Stærsti hluti látinna voru börn á aldrinum 0-4 ára og konur á barneignaaldri. Þá eru ekki nefndir aðrir alvarlegir fylgikvillar.


Frá því að skipulagðar bólusetningar hófust á Íslandi hafa ekki orðið hér faraldrar. Það greindist eitt mislingatilfelli á Íslandi árið 2014 en það var það fyrsta síðan 1996. Í þróuðum ríkjum með góð sjúkrahús er dánartíðni talin vera 1 af 2.500-3.000 mislingatilfellum. Í þróunarríkjum er dánartíðnin mun hærri eða allt að 1-5 af 100 mislingatilfellum. Að auki er talið að allt að 1 af 2.500 fái heilabólgu sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Sérstök gerð af heilabólgu (SSPE) getur komið mörgum árum eftir sjúkdóminn. Þetta er mjög sjaldgæft en vægast sagt hrikalegt ástand sem byrjar með geðrænum einkennum, minnistapi og krömpum og þegar fram vindur blindu, lömun, minnistapi, dái og dauða. Þessi einkenni koma yfirleitt 6-8 árum eftir mislingasýkingu og dregur í langflestum hluta tilfella til dauða á innan við 1-3 árum.


Nú herja mislingar á víða um heim. 176 manns hafa greinst með mislinga í 17 fylkjum Bandaríkjanna í faraldri sem hófst 28. desember sl. í Disneylandi í Kaliforníu. Stóran hluta tilfellanna mátti rekja þangað. Langstærsti hluti smitaðra var ekki bólusettur eða


ekki fullnægjandi bólusettur. Yfir 500 manns hafa greinst með mislinga í Þýskalandi síðan í október 2014 og nýverið lést 18 mánaða gamalt barn þar af völdum sjúkdómsins. Tvö mislingatilfelli hafa greinst í Danmörku á þessu ári og 27 í fyrra. Í janúar og febrúar 2015 voru greind 69 mislingatilfelli í Bretlandi. Ástandið er enn verra í vissum hlutum Afríku og Asíu. Á síðasta ári greindust hátt í 20.000 mislingatilfelli í Kirgistan, Bosníu, Rússlandi, Georgíu og Ítalíu.


Árið 2011 voru greindir 30.000 einstaklinga með mislinga í Evrópu. Átta létust, 27 fengu heilabólgu og 1.482 fengu lungnabólgu. Í 95% tilfella var fólk ekki bólusett eða ófullnægjandi bólusett.


Árið 2013 létust 145.700 manns af völdum mislinga á heimsvísu, það gerir 400 látna á dag og 16 látna á hverri klukkustund. Frá árinu 2000 og til ársins 2013 jukust bólusetningar við mislingum um 73% á heimsvísu og á sama tíma fækkaði dauðsföllum af völdum mislinga um 75%. Þetta er tæpast tilviljun. Það er áætlað að bólusetningar gegn mislingum á þessu tímabili hafi komið í veg fyrir 15,6 milljónir dauðsfalla.


Ástæður aukins fjölda tilfella


Af hverju eru sjúkdómar eins og mislingar, sem búið var að ná góðum tökum á og stefnt að því að útrýma, farnir að geisa á ný og það í faröldrum? Það er mjög einfalt. Það er vegna þess að hlutfall bólusettra hefur farið minnkandi. Til þess að bólusetningar virki og komi í veg fyrir faraldra þarf hlutfall bólusettra að vera allt að 95%, allt eftir því hversu smitandi sjúkdómurinn er. Þetta gefur svokallað hjarðónæmi. Stök tilfelli geta átt sér stað innan samfélagsins (hjarðarinnar) en sjúkdómurinn nær ekki að dreifa sér nægjanlega til þess að valda faraldri. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem af læknisfræðilegum ástæðum ekki geta fengið bólusetningar. Þar sem mislingar eru gífurlega smitandi þá þarf hlutfall bólusettra að minnsta kosti að vera 95% til að gefa hjarðónæmi, jafnvel allt að 96-99%.


Samkvæmt skýrslu landlæknis fyrir árið 2013 eru einungis um 90% barna á Íslandi bólusett gegn mislingum með MMR og í sumum landshlutum er hlutfallið undir 90%. Þann 25. febrúar síðastliðinn hvatti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin allar Evrópuþjóðir til þess að herða á bólusetningum gegn mislingum.


Boðskapurinn


Út frá samfélagslegu sjónarmiði mætti líkja því við að koma sér undan því að borga skatt að taka ekki þátt í jafn mikilvægri lýðheilsulegri forvörn eins og bólusetningum. Það er allt í lagi að þú gerir það ekki því flestir aðrir gera það hvort sem er! Það er nóg til þess að halda samfélaginu gangandi og þú nýtur góðs af því.


Bólusetningar eru ekki einungis hugsaðar sem vörn gegn smitsjúkdómum fyrir einstaklinga, heldur ein sterkasta fyrsta stigs forvörn sem völ er á til þess að stuðla að bættri lýðheilsu í okkar samfélagi og í heiminum öllum. Í þessu er ábyrgð foreldra fólgin, gagnvart sínum börnum og ekki síst gagnvart fæddum og ófæddum börnum allra hinna.


Ef þú ert enn í vafa um mikilvægi bólusetninga þá mæli ég með því að þú kynnir þér sögu þeirra sjúkdóma sem bólusettt er fyrir og hvernig málum er háttað í mörgum vanþróuðum ríkjum. Einnig geturðu haft samband við hjúkrunarfræðing eða heimilislækni á þinni heilsugæslustöð og fengið frekari ráðleggingar.