Komið í veg fyrir þriðju nauðgunina?

Sú saga gengur meðal nemenda Háskólans í Reykjavík að mennirnir sem grunaðir eru um að hafa nauðgað tveimur konum hafi haft fleiri fólskuverk í hyggju. Naumlega hafi verið komið í veg fyrir þriðju nauðgunina. Í báðum tilvikum séu fórnarlömbin nemar við HR.

Samkvæmt upplýsingum Hringbrautar úr nemendahópi Háskólans í Reykjavík eru bæði nauðgunarfórnarlömbin í sama bekk. Annar meintra nauðgara er einnig í bekknum en vinur hans hefur starfað á Reykjavík Marína hótelinu. Nemendur gagnrýna bæði lögreglu og skólann fyrir að taka ekki af meiri alvöru á málinu en raun beri vitni.

Haldið er fram að sambýlismaður ungrar konu sem talið er að hafi verið fórmarlömb númer tvö hafi ætlað að sækja hana niður í bæ en ekki verið hleypt inn á skemmtistaðinn þar sem annar meintu nauðgaranna tengist staðnum. Þriðja unga konan hafi sloppið naumlega þegar hennar kærasti hafi náð að sækja hana.

„Það er allt brjálað út af þessu.“

Fréttablaðið hefur greint frá að svo virðist sem íbúð í Hlíðunum, undir forræði annars mannsins, hafi verið útbún sérstaklega fyrir hrottalegar nauðganir með ýmsum tækjum til ofbeldis. Þá leikur grunur á að nauðgunarlyf hafi verið notuð við verknaðinn. Hvorugur mannanna situr i gæsluvarðhaldi, þeim var sleppt eftir frumrannsókn og ekki er búið að víkja hinum grunaða í Háskólanum í Reykjavík úr skólanum, en hann er í leyfi. Hinn hefur verið sendur í leyfi frá störfum sínum í gisti- og veitingaþjónustu.

„Skólinn tók fyrst á þessu máli með algjörum silkihönskum og vildi helst bara þagga það niður,“ segir einn heimildarmanna Hringbrautar sem segir samfélag nemenda í sjokki.

Lögreglan segir rannsókn ganga vel en vegna rannsóknarhagsmuna sé ekki hægt að fjalla í smáatriðum um framgang hennar. Fram hefur komið á mbl.is í dag að lögreglan telji ekki þörf á gæsluvarðhaldi yfir mönnunum tveimur og að upplýsingar um pyntingaríbúðina séu ekki frá lögreglu komnar.

Stundin hefur heimildir fyrir að annar grunuðu mannanna tveggja sé farinn úr landi og virðist samkvæmt því sem ekki hafi verið farið fram á farbann.