Kjaftasögurnar endurteknar í kvöld

Þáttur Bjarkar Eiðsdóttur um kjaftasögur og slúður verður endursýndur á Hringbraut í kvöldi sakir þess að umsjónarmaðurinn liggur nú á Landspítala til rannsóknar á hugsanlegri ofþreytu, en altént segir hún sjálf að útlit sitt sé ekki boðlegt fyrir sjónvarp þennan daginn.


Þættir Bjarkar, Kvennaráð hafa notið mikilla vinsælda og umtals allt frá því þeir fóru fyrst í loftið upp úr miðjum febrúar í vetur, en þar fjallar hún um viðkvæm kvennamál og samskipti kynjanna, oft með mjög ögrandi og hispurslausum hætti.


Sjálf hefur Björk Eiðsdóttir í mörg horn að líta, en þessi þriggja barna einstæða móðir ritstýrir tímaritinu MAN milli þess sem hún stjórnar Kvennaráðum, en tímaritið komst í hámæli í síðustu viku þegar skipta þurfti um forsíðuviðtal á síðustu stundu eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir birtist óvænt í Íslandi í dag sama dag og tímaritið átti að fara í prentun og sagði þar sömu hluti og hún hafði veitt tímaritinu í ætluðu einkaviðtali.


Björk biður fyrir kveðjur til áhorfenda sinna af spítalanum og segist ætla að mæta stálslegin til næsta þáttar að viku liðinni.