„Það var líka ógnandi, eins og einhver hafði á orði eftir fundinn, hvað hefði getað verið í þessum bakpoka!“ Þetta segir Sigurður Sigurbjörnsson formaður Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi í samtali við Hringbraut um hitafundinn sem átti sér stað í salnum í Kópavogi á laugardaginn.
Í salnum í Kópavogi höfðu sjálfstæðisfélögin í Garðabæ og Kópavogi boðað til sameiginlegs fundar til að ræða hinn umdeilda þriðja orkupakka. Þar voru einnig tveir ráðherrar viðstaddir, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir atvinnu – og nýsköpunarráðherra en hún er einnig starfandi dómsmálaráðherra. Sigurður greinir frá því að farið var ákveðna flóttaleið með ráðherrana út úr húsinu og þá voru 15 lögreglumenn í fullum skrúða sem biðu átekta hjá Kópavogskirkju ef eitthvað færi úrskeiðis. Auk þess óttuðust gestir í salnum að eitthvað misjafnt kynni að vera í bakpoka hælisleitandans.
Eins og komið hefur fram sauð upp úr á fundinum þegar hælisleitandi, sem var á mælendaskrá, vildi fá að ræða önnur mál en þriðja orkupakkann og krafðist að fá að gera slíkt á ensku. Þá reyndi fyrrverandi lögreglumaður merktur Sjálfstæðisflokknum að henda hælisleitanda út með valdi og laug því að hann væri starfandi lögreglumaður. Kenndi hann lélegri enskukunnáttu um að hafa talað á þessum nótum.
Sigurður segir að of mikið hafi verið gert úr þessu. Hann hafi róast niður og beðist afsökunar eftir fundinn. Heldur Sigurður fram að Íslendingar hafi skipulagt allt saman.
„Mér finnst meira athyglisvert að þessir íslensku aðgerðasinnar sem drógu þessa vesalings menn, sem eru í þessari ömurlegu bágbornu stöðu að vera hælisleitendur, hafi nýtt sér ómaklega stöðu þeirra að troða þeim á fundinn. Og atað þeim fram í þessari uppákomu.“
Ógnandi bakpoki
Þegar Sigurður er spurður hvort ekki hafi verið tekið of harkalega á hælisleitandanum og ógnandi staða komið upp svarar hann:
„Það var líka ógnandi eins og einhver hafði á orði eftir fundinn, hvað hefði getað verið í þessum bakpoka. Aðalatriðið er þetta; við náðum tökum á ástandinu á fundinum og allir skildu sléttir og sáttir. Hælisleitandinn þakkaði manninum fyrir að snúa sig ekki niður og draga sig út. Hann þakkaði fyrir að hafa fengið að sitja fundinn.“
Sigurður bætir við að hælisleitandinn hafi verið á mælendaskrá en síðan viljað ræða á ensku við ráðherrana um allt annað umræðuefni en þriðja orkupakkann. Þá tók Sigurður aftur fram síðar í viðtali við blaðamann að gestir hefðu óttast hvað kynni að vera í bakpoka hælisleitandans.
„Eins og einhver hafði á orði eftir fundinn, hvað hefði getað verið í þessum bakpoka? Menn eru að fabúlera í allar áttir. Sumir eru meira „paranoid“ í lífinu en aðrir. Ég heyrði því kvisað þarna, af því að menn hefðu alveg eins getað velt fyrir sér, hvað var í þessum bakpoka?“
Voru menn að velta því fyrir sér?
„Það voru einhverjir að gera það. Ég sagði við einhverja þarna: Heyrðu, halló halló. Við ætlum að lifa í núinu, við ætlum ekki að lifa í óttanum. Ef við ætlum að leyfa óttanum að taka stjórn á lífinu okkar, þá er lífið búið.“
Frosti vinnur fyrir Sigmund Davíð
Þá gagnrýnir Sigurður Miðflokksmenn og Frosta Sigurjónsson fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins, sem hefur barist hart gegn þriðja orkupakkanum.
„Þarna eru Miðflokksmenn, sérstaklega með Frosta Sigurjónsson úr Framsóknarflokknum, sem er að vinna með Sigmundi, að vélast áfram. Hann var í salnum. Hann tjáði sig aldrei. Hann bað aldrei um orðið. Það er eins og verið sé að notfæra sér bágborna virðingu og traust á þinginu, að nota þetta, þjóðernispopúlisma, að við séum að tapa öllum völdum og umræðurétti, og öllu sem að því fylgir.“
Ómerkilegir aðgerðasinnar
Sigurður heldur fram að tveir Íslendingar, maður og kona hafi birst með sex til átta hælisleitendum til að hafa áhrif á fundinn.
„Mér finnst meira athyglisvert hvað þessir ómerkilegu aðgerðarsinnar eru að gera þarna. Mér finnst það mjög dapurt að ata þeim þarna fram. Það sem þessi maður sagði okkur eftir á, hann er kristinn gyðingur frá múslimalandi, hann á ekki líf, það er ömurleg staða. Hann er að vinna hérna og vill vinna hérna og vera persóna í landinu og ég hef fullan skilning á því. Síðan getum við fundið athyglissjúka einstaklinga eins og Vilhjálm Þorsteinsson sem tekur þetta upp og dreifir þessu. Mér finnst það voðalega dapurt ef ég á að segja alveg eins og er.“
Flóttaleið ráðherra
Þá segir Sigurður að hann og Ármann Kr Ólafsson bæjarstjóri og aðrir Sjálfstæðismenn sem skipulögðu fundinn hafi verið með áætlun. Þeir hafi átt von á átökum um þriðja orkupakkann en ekki átökum í þessa veru.
„Aðalatriðið er að allir skildu sáttir,“ segir Sigurður og heldur áfram: „Það var tíu-fimmtán manna lögreglulið hjá Kópavogskirkju. Það var hringt á lögreglu. Sem betur fer þurftu þeir ekki að grípa inn í. Sem betur fer fóru þeir framhjá þegar fundurinn var búinn. Maður veit aldrei hvernig hlutirnir geta æxlast eða hvert hlutirnir geta farið. Við tókum þá ákvörðun að við fórum með ráðherrana annars staðar út úr húsinu, fórum ákveðna flóttaleið til að hafa allt á hreinu.“