Flestar ef ekki allar bílasölur landsins eru farnar að bjóða upp á 100% bílalán af notuðum bílum, en þar eð hefðbundin bílaán duga aðeins fyrir 75% af kaupunum er nú boðið upp á dekka afganginn með raðgreiðslum á greiðslukortum.
Bílasala í landinu dróst saman um helming eftir hrun - og í nokkrum tilvikum hrundi hún svo að segja alveg, einkum í sölu á nýjum bílum. Lengi vel á eftir var hún borin uppi af bílaleigum, en smám saman hefur hún svo rétt úr kútnum og er nú í góðu meðallagi að sögn bílasala sem þekkja til ástandsins á markaðnum beggja vegna hruns.
Fyrir nokkrum mánuðum fór að bera á nýjung í sölu notaðra bíla að þeirra sögn, en þá var byrjað að bjóða upp á raðgreiðslur til 36 mánaða - og jafnvel lengur - til að dekka þann kostnað sem hefðbundin bílalán náðu ekki til. Bílalánsfyrirtækin hafa boðið lán sem nema 75% af andvirði notaðra bíla, svo fremi uppgreiðsla lánsins klárist fyrir tólf ára aldur bílsins. Vextir af þessum lánum, sem eru oftast óverðtryggð, eru yfirleitt í kringum 9%, en þá er annar kostnaður, svo sem lántökukostnaður, ónefndur. Breytingin síðustu mánuði hefur verið sú að nú bjóða æ fleiri bílasölur upp á raðgreiðslur á greiðslukortum til að dekka kostnaðinn við bílakaupin sem út af stendur, gjarnan til 36 mánaða og eru vextir á þeirri greiðsludreifingu að jafnaði 12 til 13%.
Þannig er bílasala aftur komin í sama far og fyrir hrun þegar landsmenn þurftu ekki að eiga krónu fyrir bíl og gátu tekið lán fyrir öllu andvirði hans.