Yrsa kúgaðist þegar hún setti grímuna upp í Hagkaup

Yrsa Sigurðardóttir, einn vinsælasti rithöfundur þjóðarinnar, segir frá skondnu atviki sem átti sér stað í Hagkaup þann 30. desember.

„Kona í rauðri úlpu sem kúgaðist út um allt í Hagkaup áðan var ég. Gríman í úlpuvasanum reyndist síðast hafa verið notuð í skötuveislu á Þorláksmessu,“ segir Yrsa á Twitter.

Yrsa er eflaust ekki sú eina sem gripið hefur í gamla grímu nú þegar grímuskyldan er aftur tekin við. Og miðað við lyktina sem fylgir skötunni skyldi engan undra að Yrsa hafi kúgast undan lyktinni.

Í athugasemd stingur einn upp á því að það gæti verið skemmtilegt að flétta svona uppákomu inn í einhverja sögu í framtíðinni. Yrsa virðist ekki útiloka það.

„Sögupersónur hafa gubbað í fyrri bókum, svo "why not",“ segir hún.