Yngvi tók lán hjá LÍN 1983: Býr á Hrafnistu og er með Alzheimer – Sjáðu hvar lánið stendur í dag 40 árum síðar

„Við erum enn að greiða af náms­láninu sem Yngvi tók þegar hann fór til náms í Kanada árið 1983,“ sagði Jóna Björg Jónsdóttir í mjög svo athyglisverðu viðtali í Fréttablaðinu um helgina.

Þar kom fram að eigin­maður Jónu Bjargar, Yngvi Þór Loftsson, glími við Alzheimer-sjúkdóminn, en hann tók fimm milljón króna náms­lán þegar hann var í námi í Kanada árið 1983. Nú, tæp­lega fjöru­tíu árum síðar, stendur lánið í rúmum níu milljónum, þó greitt hafi verið sam­visku­sam­lega af láninu í 33 ár.

Yngvi er í dag búsettur á Hrafnistu og þekkir hann ekki lengur eiginkonu sína. Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að blaðamaður hafi komist á snoðir um Jónu í Hags­muna­hópi LÍN-greið­enda á Facebook en þar sagði hún stutt­lega frá stöðu þeirra hjóna.

Því þrátt fyrir að Yngvi viti ekki hvaða dagur er og hafi ekkert fjár­mála­læsi, er honum enn gert að greiða af náms­láni sem hann tók þegar hann var í námi í Kanada árið 1983. Jóna hefur farið fram á að lánið verði fellt niður í ljósi að­stæðna en fengið þau svör að ekki sé laga­heimild til þess.

Bent er á það að þing­menn Pírata lögðu undir lok síðasta mánaðar fram þings­á­lyktunar­til­lögu um heimild til niður­fellingar náms­lána og sagði þing­maðurinn Björn Leví Gunnars­son við það til­efni að oft og lengi hefði verið rætt um þetta í um­­ræðu­hópum þeirra sem eru með náms­­lán.

Lánið sem Yngvi tók var að fjárhæð 5.114.182 krónur meðan á námi hans stóð í Kanada. Í dag hefur hann greitt af þessu láni í 33 ár og alltaf staðið í skilum.

„Ég fékk upp­lýsingar hjá sjóðnum þess eðlis að hann ætti eftir að greiða af láninu í sjö ár til við­bótar því þetta væri S-lán og af því bæri að borga í 40 ár. Eftir­stöðvar lánsins um síðustu ára­mót voru 9.362.145 krónur.“

Jón segist hafa fengið þau svör frá LÍN að ekki sé til lagaheimild sem heimilar niðurfellingu á námsláni.

„Ég skrifaði mennta­mála­ráðu­neytinu og um­boðs­manni Al­þingis og fékk sömu svör, en mér var bent á að hægt væri að fá frest á greiðslu að upp­fylltum vissum skil­yrðum. Ég sótti um frestun á af­borgun, og sagði á­stæðuna vera vegna mann­réttinda og mennsku. Í dag veit Yngvi ekki hvaða dagur er, ekki hvað hann er gamall, hefur ekkert fjár­mála­læsi og þekkir hvorki mig né börnin. Á­standið er mjög sárs­auka­fullt fyrir okkur öll, fjöl­skyldu, ættingja og vini. Í dag er hann á mjög góðum stað, á Hrafnistu við Sléttu­veg, þar sem starfs­fólkið er frá­bært og reynir eftir bestu getu að sinna þörfum heimilis­fólksins, sem eru æði mis­jafnar. Á sama tíma og Yngvi tekur þátt í dvalar­kostnaði hjúkrunar­heimilisins, sem er sjálf­sagt og eðli­legt, borgar hann af náms­láninu sem hann tók fyrir 35 árum og hvoru tveggja fer í sama vasa,“ segir Jóna um leið og hún vonar að breytingar verði til þess að mann­réttindi og mennska verði virt.