„Við erum enn að greiða af námsláninu sem Yngvi tók þegar hann fór til náms í Kanada árið 1983,“ sagði Jóna Björg Jónsdóttir í mjög svo athyglisverðu viðtali í Fréttablaðinu um helgina.
Þar kom fram að eiginmaður Jónu Bjargar, Yngvi Þór Loftsson, glími við Alzheimer-sjúkdóminn, en hann tók fimm milljón króna námslán þegar hann var í námi í Kanada árið 1983. Nú, tæplega fjörutíu árum síðar, stendur lánið í rúmum níu milljónum, þó greitt hafi verið samviskusamlega af láninu í 33 ár.
Yngvi er í dag búsettur á Hrafnistu og þekkir hann ekki lengur eiginkonu sína. Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að blaðamaður hafi komist á snoðir um Jónu í Hagsmunahópi LÍN-greiðenda á Facebook en þar sagði hún stuttlega frá stöðu þeirra hjóna.
Því þrátt fyrir að Yngvi viti ekki hvaða dagur er og hafi ekkert fjármálalæsi, er honum enn gert að greiða af námsláni sem hann tók þegar hann var í námi í Kanada árið 1983. Jóna hefur farið fram á að lánið verði fellt niður í ljósi aðstæðna en fengið þau svör að ekki sé lagaheimild til þess.
Bent er á það að þingmenn Pírata lögðu undir lok síðasta mánaðar fram þingsályktunartillögu um heimild til niðurfellingar námslána og sagði þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson við það tilefni að oft og lengi hefði verið rætt um þetta í umræðuhópum þeirra sem eru með námslán.
Lánið sem Yngvi tók var að fjárhæð 5.114.182 krónur meðan á námi hans stóð í Kanada. Í dag hefur hann greitt af þessu láni í 33 ár og alltaf staðið í skilum.
„Ég fékk upplýsingar hjá sjóðnum þess eðlis að hann ætti eftir að greiða af láninu í sjö ár til viðbótar því þetta væri S-lán og af því bæri að borga í 40 ár. Eftirstöðvar lánsins um síðustu áramót voru 9.362.145 krónur.“
Jón segist hafa fengið þau svör frá LÍN að ekki sé til lagaheimild sem heimilar niðurfellingu á námsláni.
„Ég skrifaði menntamálaráðuneytinu og umboðsmanni Alþingis og fékk sömu svör, en mér var bent á að hægt væri að fá frest á greiðslu að uppfylltum vissum skilyrðum. Ég sótti um frestun á afborgun, og sagði ástæðuna vera vegna mannréttinda og mennsku. Í dag veit Yngvi ekki hvaða dagur er, ekki hvað hann er gamall, hefur ekkert fjármálalæsi og þekkir hvorki mig né börnin. Ástandið er mjög sársaukafullt fyrir okkur öll, fjölskyldu, ættingja og vini. Í dag er hann á mjög góðum stað, á Hrafnistu við Sléttuveg, þar sem starfsfólkið er frábært og reynir eftir bestu getu að sinna þörfum heimilisfólksins, sem eru æði misjafnar. Á sama tíma og Yngvi tekur þátt í dvalarkostnaði hjúkrunarheimilisins, sem er sjálfsagt og eðlilegt, borgar hann af námsláninu sem hann tók fyrir 35 árum og hvoru tveggja fer í sama vasa,“ segir Jóna um leið og hún vonar að breytingar verði til þess að mannréttindi og mennska verði virt.