Yndislega rúv – óþolandi rúv!

 

Stundum hreinlega elskar maður Ríkisútvarpið okkar. Til dæmis í gærkvöld þegar boðið var upp á áhugaverða náttúrulífsmynd fyrir alla fjölskylduna, einnig fróðlega heimildarmynd um list og dans og svo síðast en ekki síst Broen, fyrsta þátt þriðju þáttaraðar.

Allt var þetta gæðaefni og hvað varðar hinn innlenda þátt framleiðslunnar, sem mætt hefur afgangi hin síðari ár einhverra hluta vegna, efast ég ekki um að bæði fréttir og Kastljós hafi verið verið þess virði að horfa á í gærkvöld – þótt annir vegna barna og heimilisstúss hafi komið í veg fyrir að ég hafi getað gefið méri tíma til að kynna mér þann fréttapakka.

Það er þakkarvert að Ríkisútvarpið bjóði aðeins einum degi eftir að Broenþátturinn var frumsýndur í Svíþjóð og Danmörk upp á þetta gæðaefni hér á landi. Persónusköpun Sögu ein og sér er svo mögnuð að þótt ekki væri fyrir annað færir Broen okkur stundir sem eru hafnar yfir allt annað sjónvarpsefni sem fjallar um fólk og glæpi.

Á sama tíma ber maður blendnar tilfinningar til Ríkisútvarpsins fyrir ýmis auglýsingatilboð og pakka sem grafa undan keppinautum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Vitaskuld á Ríkisútvarpið ekki að grafa undan samkeppni einkamarkaðarins með því að vera á auglýsingamarkaði. Þjóðinni er sléttsama þótt 1-2 milljarðar  úr almannasjóðum verði nýttir í stað auglýsingafjárins sem Rúv er gert að afla – það er ef við fáum hágæða dagskrárgerð í staðinn. Ef dagskráin er góð og greinir sig sannarlega frá framtaki einkamiðlanna  getum við öll með sanni sagt að það sé einhvers virði að almenningur fjármagni almannaútvarp.

Ein meginrökin gegn því að taka Rúv burt af auglýsingamarkaði hafa verið nefnd að þá myndi 365 veldi Jóns Ásgeirs leggja allt undir sig. Það er eins og gleymist að hæg eru heimatökin að semja löggjöf sem myndi útiloka það. Með löggjöf sem myndi tryggja jafnræði og að enginn einn gæti keypt upp markaðinn á þeim fákeppnismarkaði sem Ísland allt er, myndi skapast eðlilegt samkeppnisumhverfi. Áhorfendur og hlustendur yrðu sælir, átök um umdeildasta hlutann af starfsemi Ríkisútvarpsins yrðu að engu - í þágu almannahagsmuna.

Ríkisútvarpið á að vera betra en svo að gefa höggstað á sér með endalausum undirboðum á auglýsingamarkaði í krafti forgjafar sinnar, forréttinda og yfirburðastöðu umfram einkaaðila.

Ríkisútvarpið á að hundskast burt af auglýsingamarkaði og vera okkar BBC.