Klofningsframboð Sigmundar Davíðs kemur róti á stöðu annarra flokka vegna komandi kosninga eftir 31 dag.
Þremur dögum eftir að tilkynnt var um framboðið þykjast margir greina áhrif af framboði Sigmundar. Meðal annars þetta:
Framsókn mun trúlega ekki tapa eins miklu og ætlað var í fyrstu því talið er að flokkurinn fái talsvert fylgi til baka sem vega mun nokkuð á móti því sem tapast yfir til flokks Sigmundar. Margir Framsóknarmenn sem gátu ekki hugsað sér að kjósa flokkinn síðast vegna Sigmundar, og fóru þá yfir á Sjálfstæðisflokkinn eða VG, munu nú skila sér til baka. Framsókn gæti því endað með 9% fylgi og 6 þingmenn sem er svipað og margir spá flokki Sigmundar.
Þá er það útbreidd skoðun að framboð Sigmundar kippi fótum undan Flokki fólksins. Óánægjufylgi þeirra muni fara mikið yfir til Sigmundar og leiða til þess að Flokkur fólksins nái ekki fulltrúa inn á þing.
Píratar eru á niðurleið og mega þakka fyrir ef þeir ná 10% fylgi og 7 þingmönnum.
Viðreisn mun trúlega ekki ná að halda öllu fylgi sínu frá síðustu kosningum. 9% fylgi gæfi þeim 6 þingmenn en einn tapaðist.
Gefum okkur að Samfylking fái 7% og 4 þingmenn og Björt framtíð nái yfir 5% markið og fái 3 þingmenn.
Sjálfstæðisflokkurinn er með vindinn í fangið vegna óheppilegra mála, lítilla afreka í núverandi ríkisstjórn og þess agaleysis sem hefur einkennt þingflokk þeirra þar sem sumir þingmenn hlýða ekki formanni flokksins og gera með því stöðu hans vandræðalega. Flokkurinn býr engu að síður yfir vel smurðri kosningavél og virkri \"skrímsladeild\" sem munu ekki láta sitt eftir liggja. Flokkurinn nær 26% í kosningunum og 19 þingmönnum, tapar tveimur.
Vinstri grænir munu missa núverandi flug í kosningabaráttunni en samt bæta við sig tveimur þingmönnum frá síðustu kosningum. Munu hljóta 18% atkvæða og 12 þingmenn.
Framboð sem koma ekki mönnum á þing munu samkvæmt þessu hljóta 7% atkvæða samtals.
Yrði þetta niðurstaða kosninga þá má ætla að Sjálfstæðisflokkurinn missti einn þingmann í Reykjavík og annan í Suðurlandskjördæmi sem gæti leitt til þess að forseti Alþingis og dómsmálaráðherra féllu. Tapi Viðreisn einum gæti Benedikt Jóhannesson formaður dottið út af þingi, rétt eins og Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, sem næði væntanlega ekki kjöri í Reykjavík ef Framsókn tapar þingsætum.
Það sem er ógnvekjandi við kosningaúrslit af þessu tagi er sú ríkisstjórn sem væntanlega yrði mynduð:
Sjálfstæðisflokkur, VG og Framsókn með samtals 37 þingmenn á bak við sig.
Kyrrstöðustjórn þriggja Framsóknarflokka.
Varla yrði mikill vandi að koma svona stjórn saman því þessir þrír flokkar eru með sömu stefnu í landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum, gjaldmiðlamálum, Evrópumálum og allir eru þeir mótfallnir samstarfi við erlendar þjóðir. Þrír Framsóknarflokkar sem aðhyllast þjóðerniseinangrunarhyggju.
Einhver ágreiningur yrði um skattheimtu sem yrði leystur með hækkun tekjuskatts á hæstu tekjur. Svona rétt til að gleðja Vinstri græna.
Rtá.