Strangt til tekið, kveða engin lög á um það að neytendur hafi rétt á að skila vörum eftir að þær eru keyptar, að því undanskildu að varan sé gölluð. Að gagnrýna skamman skilafrest á jólagjöfum, sem í sumum verslunum má aðeins skila til 31.desember, byggir því ekki á einhverjum ,,réttindum” neytenda, heldur viðskiptavenjum.
Þetta er meðal þess sem kom fram í þættinum Ég bara spyr sem sýndur var á Hringbraut í gærkvöld, en þáttinn má sjá hér á vef stöðvarinnar. Þar eru neytendamálin rædd í kjölfar jóla. Til dæmis Facebookleikir sem eru vinsælir fyrir jólin, en um slíka leiki koma upp tilfelli þar sem fólki eru lofaðir vinningar sem það fær síðan aldrei afhent. Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum, segir þó að Facebookleikir teljist til hefðbundins markaðsstarfs og því eigi fyrirtæki að standa við veitt loforð um vinninga, þótt það séu bara ,,kvittað og deilt” leikir á Facebook. Þá segir hún að neytendur þurfi að vera meðvitaðir um hvaða vald þeir hafa. Þannig geti þeir alltaf sagt ,,Nei takk,” ef þeir eru til dæmis ekki sáttir við að kaup á gjafabréfum sem hafa stuttan gildistíma, þótt varan eða þjónustan sé að fullu greidd.
Neytendamálin í kjölfar jóla, eru líka umræðuefni þáttarins en eins er rætt við Víðir Þór Þrastarson, heilsu- og íþróttafræðing, um áramótaheitin sem flest ganga út á einhverjar lífstílsbreytingar. Umræðuefnin byggja á spurningum lesenda Spyr.is og áhorfenda Hringbrautar og geta áhorfendur tekið þátt í dagskrárgerðinni, með því að senda fyrirspurnir til Spyr.is. Þaðan er valið úr spurningum og svörum í hverri viku.
Þátturinn er í endursýningu á sunnudagskvöld.