Náttfari 20. sept 2016
Það er nokkuð um liðið síðan Náttfari hefur verið fyrir norðan. En þó að honum finnist norðan menn að jafnaði skarpari en annað fólk finnst honum lítið koma til þess málskrafs sem Dagfari kemur með úr heitu pottunum á Akureyri vegna skýrslunnar sem þau mætu pólitísku skötuhjú Vigdís Hauksdóttir og Guðlaug Þór birtu á dögunum.
Forsenda skýrslunnar er sú að Steingrímur J. og Jóhanna hafi einkavætt bankana að nýju. Það hefðu þau ekki getað gert nema neyðarlögin sem Sjálfstæðisflokkurinn og Jóhanna báru saman ábyrgð á haustið 2008 hefðu falið í sér þjóðnýtingu á eignum kröfuhafanna í slitabúum gömlu bankanna.
Náttfari hefur alltaf haft þá tilfinningu að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn væru helstu málsvarar einkaeignaréttar í landinu. Hafi kröfur þeirra sem lánað höfðu föllnu bönkunum verið þjóðnýttar með neyðarlögunum var augljóslega um gjafagerninga að ræða þegar kröfuhafarnir fengu hlut sinn í nýju bönkunum viðurkenndan.
En hafi neyðarlögin ekki verið þjóðnýtingarlög fær Náttfari ekki séð hvernig ríkið gat orðið eigandi bankanna nema borga fullt verð fyrir. Það hefði því sett ríkissjóð í meiri áhættu ef ríkið hefði sett peninga skattborgaranna inn í Arion banka og Íslandsbanka í jafn ríkum mæli og gert var með Landsbankann.
Náttfara er hlýtt til Guðlaugs Þórs. Hann er kraftmikill þingmaður. Vigdís Hauksdóttir hefur að vísu ekki höfðað til Náttfara með sama hætti. En burtséð frá því er alveg óþarfi að gera eitthvert meiriháttar veður út af vinnubrögðum þeirra með þessa skýrslu jafnvel þótt Einar Guðfinnsson hafi sett ofan í við þau.
Það sem máli skiptir er að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn geri grein fyrir því hvernig þessi málflutningur samrýmist afstöðu flokkanna til þeirrar verndar sem eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar mælir fyrir um. Þeir þurfa einnig að gera betur grein fyrir því hvernig þeir túlka neyðarlögin að þessu leyti.
Þegar formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa gert þetta er bara flott að hafa Guðlaug Þór í leiðtogasæti í Reykjavík.