Vorboðinn ljúfi

Mikill titringur er innan Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Aðalfundur félagsins er í kvöld og stefnir í slag um formanninn.

Þar takast á Júlíus Viggó Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri SÍF, Sambands íslenskra framhaldsskólanema, og Páll Orri Pálsson.

Ýmsum ráðum er beitt til að laða fylgi til frambjóðendanna. Í síðustu viku var eftirfarandi hvatning birt í snapchathópi á vegum Páls Orra.

„Páll Orri er að bjóða sig fram í formann Heimdallar

Kosið er á mánudaginn 3. apríl kl. 20:30 í Valhöll - hægt er að skrá sig í flokkinn á xd.is. Þarf að breyta lögheimili, tekur 1 mín, á skra.is

Breyta í þetta heimilisfang

Frakkastígur 8c hæð 4 íbúð 418

BESTI PARTURINN við að gera þetta einfalda concept. Beer á Skugga á föstudaginn!“

Heimildamaður Hringbrautar segir meðlimi í snapchat hópnum marga hverja aðeins 16-17 ára. Þá sé heimilisfang sem verið er að biðja fólk um flytja á heimilisfang Mikael Harðarssonar sem sé í stjórnarframboði Páls Orra.

Ljóst er að átökin eru mikil meðal ungra sjálfstæðismanna. Á undanförnum árum hefur það verið nær árviss viðburður að átök um völdin í Heimdalli eða SUS rati í fjölmiðla. Fræg eru SUS-þingin þar sem heilu flugvélafarmarnir af atkvæðum hafa verið fluttir á kjörstað og fulltrúar framboða hafa mætt með seðlabúnt til að greiða félags- og fundargjöld fyrir allan hópinn.

Maður veit að það er komið vor þegar heyrist í lóunni og ungir sjálfstæðismenn bjóða upp á lögheimilisskipti og bjór fyrir fyrir ungmenni, sagði einn viðmælandi Hringbrautar.