Fylgið vex lítið sem ekkert
Skoðanakönnun Viðskiptablaðsins um fylgi vegna borgarstjórnarkosninga í Reykjavík veldur Sjálfstæðisflokknum vonbrigðum og hugarangri.
Gallup gerði þessa könnun frá 4. til 31. janúar. Allan þann tíma beindist athygli fjölmiðla að Sjálfstæðisflokknum vegna framboðsmála og sérstaklega að Eyþóri Arnalds, sellóleikara frá Selfossi, eftir að ljóst varð að hann ætti að leiða lista flokksins í vor. Þess vegna hefði mátt búast við því að flokkurinn fengi gott fylgi í þessari könnun út á alla athyglina. Fylgi flokksins reyndist vera 29,1% en var 25,7% í síðustu kosningum. Fylgi Framsóknar var nær ekkert og flokkurinn kæmi ekki manni að frekar en Miðflokkurinn. Samfylkingin mældist með 25,7% fylgi sem hlýtur að teljast gott í ljósi þeirra ofsókna sem flokkurinn hefur orðið fyrir frá Morgunblaðinu og öðrum málpípum Sjálfstæðisflokksins. Það virðist ekki vera að virka – ekki frekar en ofsóknir blaðsins í garð Guðna Th. Jóhannessonar forseta þegar ritstjóri blaðsins atti kappi við hann um forsetaembættið vorið 2016. Guðni hlaut um 40% atkvæða en Davíð einungis 13%. Þessi saga gæti endurtekið sig núna en Eyþór Arnalds er frambjóðandi Morgunblaðsarms Sjálfstæðisflokksins eins og kunnugt er.
VG og Píratar mældust með 13,3% hvor flokkur og fengju 3 menn hvor. Viðreisn og Flokkur fólksins fengju einn mann hvor samkvæmt þessari könnun. Samfylkingin gæti myndað meirihluta áfram með VG og Pírötum þó Björt framtíð þurrkist út.
Langt er til kosninga og flokkarnir eiga eftir að sýna framboð sín þó þegar sé ljóst hverjir leiði hjá Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Viðreisn boðar öflugan lista og ætlar sér mikið, sama má segja um fleiri flokka. Samfylkingin er með prófkjör um helgina þar sem margir frambærilegir eru í framboði en Dagur borgarstjóri býður sig einn fram í efsta sætið.
Kjörnefnd stillir upp hjá Sjálfstæðisflokki og er sögð leita logandi ljósi að þekktum einstaklingum til að skreyta listann. Talið er víst að bæði Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir verði í “öruggum” sætum, á bilinu fjögur til sex. Eins Marta Guðjónsdóttir, Börkur Gunnarsson og Sigríður Hallgrímsdóttir fyrrverandi aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar. Ekkert þeirra er líklegt til að draga að fylgi og því er leitað að þekktum fjölmiðlamönnum, listamönnum eða íþróttafólki sem gætu lyft annars daufri ásýnd flokksins í höfuðborginni.
Gárungarnir hafa velt því upp hvort ekki væri tilvalið að ráðherrar flokksins úr Reykjavík skipi heiðurssætin, þau Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigríður Andersen. Verður ekki að tjalda því sem til er?
Rtá.