Dómsmálaráðherra vildi örugglega vera laus við þá vandræðalegu umræðu sem nú fer fram um símtöl hennar til lögreglustjóra á aðfangadag eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gleymdi sér í gleðinni að kvöldi Þorláksmessu og er talinn hafa tekið þátt í að brjóta sóttvarnarreglur sem landsmönnum hefur verið uppálagt að virða.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur haldið því fram í viðtölum við fjölmiðla að ekkert hafi verið óeðlilegt við að hún hringdi tvisvar í Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra, á aðfangadag. Bæði fyrir hádegi og eins síðdegis þegar jólahátíðin var að ganga í garð. Ráðherra hefur mátt þola háð og spott vegna þessa. Flestir telja sig vita hvers vegna henni var svo umhugað að heyra í lögreglustjóranum, sem hún hafði skipað í embætti nokkrum mánuðum áður. Áslaug Arna hefur væntanlega haft miklar áhyggjur af stöðu formanns flokksins eftir að hann rýrði trúverðugleika sinn með klaufalegri þátttöku í samkvæmi sem fram fór í Ásmundarsal en Bjarni valdi Áslaugu Örnu til setu í ríkisstjórninni eftir að Sigríður Andersen hrökklaðist úr embætti dómsmálaráðherra vegna embættisafglapa.
Því er nú haldið fram að tilgangur símtala ráðherrans á sjálfan aðfangadag hafi verið að fá lögreglustjórann til að breyta skýrslu um meint brot á sóttvarnarlögum með því að segja að um hafi verið að ræða listviðburð en ekki samkvæmi enda gilda misjafnar fjöldatakmarkanir eftir eðli viðburða. Sé þetta rétt, þá er um alvarlega íhlutun ráðherrans að ræða sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Enginn trúir því að tilgangur símtalanna hafi verið að óska lögreglustjóranum gleðilegra jóla. Svör Áslaugar Örnu þykja ekki trúverðug. Margir efast stórlega um sannleiksgildi svara hennar enda hefur þingnefndum þótt ástæða til að taka mál hennar til alvarlegrar skoðunar.
Af þessu tilefni hafa margir rifjað upp örlög Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sagði af sér ráðherradómi og hætti í stjórnmálum eftir að hún varð uppvís að því að segja ósatt í svonefndu lekamáli á sínum tíma. Hún reyndi að hafa áhrif á störf lögreglustjórans í Reykjavík og það réði miklu um fall hennar af stalli ráðherra.
„Maður á alltaf að segja satt, sé þess kostur“, er þekkt setning úr stjórnmálasögunni. Hanna Birna fór ekki eftir því og féll á eigin bragði. Ætla mætti að seinni tíma stjórnmálamenn hefðu lært einhverja lexíu af örlögum Hönnu Birnu. Hvort Áslaugar Örnu bíða sömu örlög og Hönnu Birnu á eftir að koma í ljós. Vonandi hefur Áslaug ekki sagt ósatt þannig að hún geti komist pólitískt lifandi frá þessu vandræðalega máli.
Vert er að hafa í huga að Halla Bergþóra Björnsdóttir er fædd og uppalin í Sjálfstæðisflokknum. Hún er upprunnin í innsta hring flokksins. Halla er dóttir Björns Jónssonar, stórbónda á Laxamýri í Aðaldal. Hann var bróðir Vigfúsar Jónssonar á Laxamýri sem var lengi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og kom oft inn á þing sem slíkur. Laxamýrarbændur voru helstu bakhjarlar Halldórs Blöndal, þingmanns og ráðherra, nánir vinir hans og buðu honum jafnan að vera við opnun veiðanna í Laxá á vorin. Yfirleitt voru birtar fréttir og myndir af því í Morgunblaðinu. Bróðir Höllu Bergþóru er Jón Helgi Björnsson sem var lengi sveitarstjórnarmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norður-Þingeyjarsýslu og á Húsavík þar til Kristján Þór Júlíusson, þá heilbrigðisráðherra, skipaði hann í stöðu forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands árið 2014.
Loks má geta þess að Halla Bergþóra Björnsdóttir er 51 árs að aldri. Bjarni Benediktsson er 50 ára þannig að þau hafa verið samtímis við nám í lagadeild Háskóla Íslands. Það er skemmtileg tilviljun - en segir þó að sjálfsögðu ekki neitt um að þau hafi þekkst mikið eða á milli þeirra sé vinátta. Einungis ótvíræð flokkstengsl.