Kristrún Frostadóttir, þingmaður og formannskandídat Samfylkingar, hefur talað fyrir þeim meginlausnum í efnahagsmálum og ríkisfjármálum að hækka skatta og það hressilega. Hún bendir einkum á eignarskatta og beinir sjónum sínum að þeim efnameiri, fólkinu og fyrirtækjunum sem þegar greiða langmesta skatta til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar.
Þetta kom skýrt fram í ítarlegu viðtali sem ritstjóri Stundarinnar, Jón Tausti Reynisson, átti við hana og birtist í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Kristrún svarar markvissum spurningum hans með almennum yfirlýsingum og víkur sér undan, en Jón Trausti ítrekar þá spurningar sínar og heldur Kristrúnu við efnið þar til hún kemst ekki hjá því að tala nokkuð skýrt.
Vissum áhyggjum veldur að Kristrún nefnir helst þær lausnir að hækka skatta stórlega og helst á þá sem hafa náð að koma sér bærilega fyrir með vinnusemi, dugnaði og útsjónarsemi. Ekki verður séð að þessar hugmyndir miði að aukinni verðmætasköpun í þjóðfélaginu og hættan er sú að þessi leið til að jafna stöðu fólks og fyrirtækja liggi niður á við þannig að fleiri hafi það slæmt en nú er. Þetta er sósíalismi eymdarinnar – að toga niður frekar en að lyfta upp.
Sjónarmið af þessu tagi þekkjast vissulega í stjórnmálum um allan heim. Einnig hér á landi. En þessi stefna á illa heima í Samfylkingunni sem hefur viljað staðsetja sig á miðjunni en ekki úti á vinstri jaðri stjórnmálanna.
Kristrún mætti hafa hugfast að sósíalismi eymdarinnar hefur áður verið reyndur í Samfylkingunni með skelfilegum afleiðingum.
Í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur fór Samfylkingin fyrir verstu ríkisstjórn Íslandssögunnar árin 2009 til 2013. Þegar Jóhanna hafði náð völdum sýndi hún sitt rétta andlit. Hún lét skattleggja allt sem hreyfðist og stýrði þjóðinni niður í enn meiri öldudal en hefði þurft eftir bankakreppuna 2008. Hún lét skattleggja fólk og fyrirtæki upp að öxlum og þess vegna tók mörgum árum lengri tíma en hefði þurft að ná efnahagslífinu upp að nýju.
Að ógleymdu skotleyfinu á heimilin, sem var gefið í tíð þeirrar ríkisstjórnar.
Þessi hernaður gegn fólkinu í landinu reyndist afdrifaríkur fyrir Samfylkinguna.
Í kosningunum 2013, þegar þjóðin fékk loks tækifæri til að segja álit sitt á þeirri stefnu sem Samfylkingin hafði fylgt í hreinu vinstri stjórninni með Vinstri grænum, hrundi fylgi Samfylkingarinnar niður fyrir helming þess sem var í kosningunum á undan og átti eftir að minnka að nýju um helming og fór niður í 6 prósent og þrjá þingmenn þegar verst lét. Þá höfðu kjósendur endanlega áttað sig á því hvernig niðurrifs-og skattpíningarstefna Jóhönnu lék þjóðina.
Þetta hefði átt að vera Samfylkingarfólki víti til varnaðar – ofsköttunarstefna Jóhönnu Sigurðardóttur er ekki uppskrift að góðu gengi. Leið Samfylkingarinnar til valda og áhrifa liggur ekki úti á jaðri sósíalismans í samkeppni við Sósíalistaflokk Gunnars Smára, langt til vinstri við sósíalistaflokk Katrínar Jakobsdóttur.
Leiðin liggur um frjálslynda miðju þar sem flestir kjósendur eru. Kjósi Kristrún Frostadóttir að reyna að yfirbjóða Gunnar Smára í sósíalisma velur hún bardaga sem hún getur ekki unnið, bardaga um jaðarfylgið til vinstri.
Leiðin fram á við liggur ekki til vinstri eða hægri. Leiðin er beint í gegnum miðjuna. Vinstrið og hægrið standa vörð um gamla Ísland, kerfið sem vinnur gegn fólkinu, krónuhagkerfið sem viðheldur bágum kjörum vinnandi fólks. Frjálslynd miðja með áherslu á eðlilega hagstjórn, til dæmis eðlilega gjaldtöku fyrir aðgang að þjóðarauðlindum, og þátttöku í samstarfi lýðræðisþjóða í okkar heimsálfu, er leiðin fram á við.
Kjósi Kristrún að fylgja fordæmi Jóhönnu Sigurðardóttur, sem náði hér um bil að þurrka flokkinn út af landakorti íslenskra stjórnmála, gæti hún lokið verki Jóhönnu – og þurrkað út Samfylkinguna. Kristrún þarf að tala skýrt. Og hún þarf að vita hvert hún vill stefna með Samfylkinguna og Ísland.
- Ólafur Arnarson.