Avókadó er mjög vinsæll ávöxtur í dag og hægt er að leika sér með hann í matargerð með fisk og kjöti og nýta hann ofan á brauð eða í ýmsi konar salat- og eggjarétti. Margir setja avókadó í booztinn sinn. Einnig er avókadó undirstaðan í guaqamole og svo er það bara ótrúlega gott eitt og sér.
Avókadó er ríkt af góðri fitu og er K-vítamíngjafi, en K-vítamín stuðlar að viðhaldi beina. Avókadó er stútfullt af góðri fitu, sömu góðu fitunni og er í ólífuolíu. Þess vegna er avókadó einstaklega gott fyrir hjartaheilsu okkar.
Best er að geyma avókadó við stofuhita þar til það er fullþroskað. Flýta má fyrir þroska þeirra með því að vefja þeim inn í pappír og geyma við heitan ofn. Fullþroskað avókadó geymist í kæli í 3-5 daga.
Mikilvægt er að þvo ávöxtinn vel fyrir notkun. Skerið í kringum steininn, snúið helmingunum í sitthvora áttina til að losa um. Sláið síðan varlega með beittum hníf létt á aldinsteinninn til að losa hann. Notið skeið til að skafa kjötið úr hýðinu.
Avókadó er stútfullt af góðum næringarefnum og er ein af þessum fæðutegundum sem hefur verið kölluð ofurfæða.