Vísindi: hrukkukrem virka ekki

Það er sama hvort það kostar fleiri þúsund eða nokkur hundruð: Hrukkukrem virka ekki. Þetta er niðurstaða þýsku neytendastofnunarinnar, Stiftung Warentest, sem framkvæmdi ítarlegar prófanir á níu hrukkukremum frá jafn mörgum framleiðendum.
 
Í samantekt um málið á fréttaveitu RÚV segir að í Þýskalandi trúi því víst önnur hver kona, að krem af einhverju tagi geti minnkað hrukkur verulega eða jafnvel látið þær hverfa alveg - og er þar vitnað í þýska stórblaðinu Der Spiegel. Sú trú sé ekki á rökum reist, samkvæmt rannsókn neytendastofnunarinnar.
 

Niðurstaðan er þessi: 270 konur báru daglega hrukkukrem á hálft andlitið, kvölds og morgna, en venjulegt rakakrem á hinn helminginn, í fjórar vikur samfleytt. Það er sá tími, sem flestir hrukkujukksframleiðendur segja það taka, að ná fram merkjanlegum mun á hrukkudýpt og fjölda í andlitum þeirra sem þau nota. Sumir segja reyndar að djúpar hrukkur grynnist og húðin sléttist til muna á aðeins 14 dögum.

Í stuttu máli sagt, þá er engin innstæða fyrir þessum loforðum, hvort sem kremið kostar tvær evrur eða 87, og hvort sem meint töfrainnihald þeirra byggir á galdragumsinu Pro Retinol A eða Q10.

Hvert krem var prófað af 30 konum. Myndir voru teknar fyrir og eftir fjögurra vikna reynslutímann. Þeir sem skoðuðu myndirnar vissu ekki hvor mynd var tekin fyrir eða eftir, heldur ekki hvor helmingur andlitsins var makaður hrukkukremi og hvor rakakremi, né heldur hvaða krem hver notaði. Niðurstaðan var afgerandi: Munurinn var enginn.

Krem frá eftirtöldum framleiðendum voru prófuð: Diadermine, Estée Lauder, Lancaster, Lavera L\ Oréal