Óttalegur vandræðagangur hefur verið á Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra varðandi rjúpnaveiðar á þessu ári. Hann hefur slegið í og úr og engst með þessa ákvörðun þar til í gær, þremur dögum fyrir rjúpnaveiðitímabilið, að kom einhvers konar „já og aftur nei“ ákvörðun. Hann virðist ekki hafa nægan kjark til að bera að friða rjúpuna þrátt fyrir að hrun hafi orðið á stofninum, sem aldrei hefur mælst minni.
Árið 2002 fór veiðistofn rjúpu í fyrsta sinn niður fyrir 300 þúsund fugla. Þá var gripið til þess ráðs að friða rjúpuna með öllu árin 2003 og 2004. Aftur gerðist þetta í fyrra, á vakt Guðmundar Inga. Veiðistofninn hefur aldrei mælst minni, aðeins 248 þúsund fuglar, en meðalstærð veiðistofnsins síðustu 15 árin er yfir 600 þúsund fuglar. Fordæmið frá 2002 er skýrt. Rjúpuna átti að friða í ár. En, nei, umhverfisráðherrann frá Vinstri grænum kaus að friða hana bara alls ekki, en setja þess í stað takmarkanir á fjölda fugla sem veiða má og búa til banndaga.
Meðalveiði á veiðimann árin 2005-2020 er 12 fuglar. Minnst varð hún níu fuglar á mann og mest 16 fuglar. Nú ætlast umhverfisráðherra til þess að hver veiðimaður láti sér nægja fjóra fugla. Þetta er dæmi um ráðherra sem stendur ekki í lappirnar. Nú hefði átt að friða rjúpuna en vegna þrýstings frá rjúpnaveiðimönnum kemur hálfkák frá umhverfisráðherra og hann leyfir svo takmarkaða veiði á mann að allir vita að ekki verður farið eftir því. Fjórar rjúpur duga engan veginn í jólamatinn fyrir venjulega fjölskyldu. Hver ætlar að fylgjast með því að enginn veiði umfram kvóta?
Telur umhverfisráðherra að menn muni almennt fara til fjalla með þeim tilkostnaði sem því fylgir til að ná sér í fjórar rjúpur? Einsýnt er að menn munu veiða það sem þeir telja þurfa í jólamatinn fyrir sig og sína, enda er enginn vegur fyrir umhverfisráðherra að fylgjast með veiðinni.
Afleiðingar þess að umhverfisráðherra treysti sér ekki til að standa í lappirnar gegn þrýstingi rjúpnaveiðimanna geta orðið skelfilegar fyrir rjúpnastofninn, sem er fyrir í sögulegri lægð. Ofveiði, sem blasir hreint við, getur riðið stofninum að fullu. Óhætt er að segja að ekki finnist mikið grænt í litakorti umhverfisráðherra þegar kemur að dýravernd. Þar eru allir litir frá gráu og út í svart.
- Ólafur Arnarson
Vinstri grár þegar kemur að dýravernd

Fleiri fréttir
Nýjast