Vinstri grænir sleikja sár sín

Flokksráðsfundur VG er haldinn um helgina. Þar sleikja forystumenn flokksins sár sín eftir að hafa klúðrað möguleikum sínum til þàtttöku í ríkisstjórn. Flokkurinn er í pólitískri útlegð annað kjörtímabilið í röð.

Fyrir einu ári virtist Katrín Jakobsdóttir formaður flokksins eiga alla möguleika á að verða forseti Íslands en hún spilaði því út úr höndum sér. Því var haldið fram að hún vildi heldur verða forsætisráðherra vinstri stjórnar. En því klúðraði hún einnig og er nú einungis óbreyttur þingmaður með flokk sinn í sundurlausri og ráðviltri stjórnarandstöðu.

Í ræðu sinni á flokksþinginu reyndi Katrín af veikum mætti að afsaka klúður forystu flokksins og sleikja sár sín. Hún ítrekaði allar þær óraunhæfu skattahugmyndir sem hún kynnti í stjórnarmyndunarviðræðum en þær leiddu til þess að aðrir flokkar vildu ekki vinna með VG.

Katrín er vinsæl og hún verður áfram geðþekk manneskja. En hún er búin sem leiðtogi VG. Flokkurinn hlýtur innan skamms að finna sér nýjan formann.

Svandís Svavarsdóttir bíður tilbúin á hliðarlínunni. Andstæðingar flokksins vona að hún verði formaður sem fyrst.