Vinstri græn týndu öllum prinsippum í jólaösinni

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna virðist vera föl fyrir völd. Hún hefur á alllöngum stjórnmálaferli sínum gefið sig út fyrir að vera mikil prinsippmanneskja. Hún hefur gagnrýnt spillingu og sérhagsmunagæslu Framsóknarflokkanna tveggja sem hún er nú með í ríkisstjórnarsamstarfi. Kjósendur voru eindregið hvattir til að kjósa Vinstri græna í kosningunum sl. haust gagngert til að tryggja hag hinna verr settu og til að sporna gegn þjónkun við sérhagsmuni hinna ríku í sjávarútvegi og landbúnaði.

Katrín settist svo í stól forsætisráðherra þann 30. nóvember og náði að kveðja öll prinsipp Vinstri grænna í jólamánuðinum. Flokkurinn hafði lofað því að bæta strax hag hinna verst settu í samfélaginu, það átti að setja umtalsverða fjármuni í heilbrigðiskerfið til viðótar við það sem þegar hafði verið kynnt og sama gilti um samgöngukerfið sem viðurkennt var að vantaði 15 milljarða til viðbótar þegar á komandi ári.

Skemmst er frá því að segja að þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafði afgreitt fjárlögin kom á daginn að ekkert var gert fyrir þá fátæku og illa stöddu, Landsspítalinn fær ekki einu sinni sömu fjárveitingar og árið á undan og til samgöngumálanna var ráðstafað 2 milljörðum króna en ekki 15 eins og viðurkennt var að þyrfti. Þegar ríkisstjórnin var ynnt eftir því hvað liði fortakslausu kosningaloforði um niðurfellingu virðisaukaskatts af bókum, var svarið: Jú, en síðar. Ekki núna. Það voru ekki til nokkur hundruð milljónir í það loforð. Hins vegar var hægt að hækka framlög til stjórnmálaflokka um 350 milljónir þó enginn hafi lofað því opinberlega fyrir kosningar. Og það voru einnig til 665 milljónir til að borga tap sauðfjárbænda sem kunna ekki að reka atvinnustarfsemi sína og halda að það sé vandamál ríkisins.

Ríkisstjórn Katrínar ætlar að standa vaktina í sérhagsmunagæslu fyrir bændur og sægreifa frá fyrsta degi. Nú er talað grímulaust um að lækka veiðileyfagjöld í sjávarútvegi sem hafa verið allt of lág um árabil. Það heitir að létta af litlum og meðalstórum fyrirtækjum því það hljómar eflaust betur. En auðvitað á að lækka gjöldin hjá öllum enda er hér á ferðinni ríkisstjórn sérhagsmuna bænda og sægreifa. Það þarf enginn að vera hissa á að þetta sé vilji Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. En að Vinstri græn hafi umturnast á einum mánuði og gerst gæsluaðili sérhagsmuna á kostnað heildarinnar eru stóru tíðindin.

Jónas Kristjánsson orðar þetta skýrt í skrifum sínum:

“Ríkisstjórnin hefir ákveðið að lækka auðlindarentu frá litlum og meðalstórum kvótagreifum á þessu ári. Þetta er sama ríkisstjórn og hafnaði hækkun barnabóta og vaxtabóta. Neitar að gera neitt fyrir þá fátækustu, húsnæðislausu, einstæðinga með börn, öryrkja og aldraða. Þetta er ríkisstjórn aukins ójafnaðar. Harðsvíraðri hægristjórn en sú, sem lagði upp laupana í haust. Þetta er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Sú stjórn er verri en stjórn Bjarna Benediktssonar var í fyrra. Nú má sjá, að Vinstri græn eru gersamlega áhrifalaus aðili að stjórn bófaflokksins. Og Katrín er bara gluggaskraut. Mestur hluti flokksins segir bara já og amen.”

Katrín Jakobsdóttir hefur lengi verið vinsælasti stjórnmálamaður landsins. Með þessu áframhaldi svika og prinsippleysis mun hún falla hratt af þeim stalli og verða óvinsælasti stjórnmálamaður landsins.

Hið ósmekklega tal Davíðs Oddssonar í leiðara Morgunblaðsins um Katrínu sem “gluggaskraut” gæti með þessu áframhaldi orðið að áhrínsorðum.

Langt er síðan íslenskur stjórnmálamaður hefur kvatt meginstefnu flokks síns og kosningaloforð jafnhratt og Katrín Jakobsdóttir. Þau óheilindi munu verða henni dýrkeypt.

Rtá.