Vinstri græn loga - katrín að missa tökin

Katrín Jakobsdóttir formaður VG ræður ekkert við þingflokk og forystu flokksins sem getur ekki komið sér saman um það hvort á að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki eða ekki.
 
Katrín er tilbúin að fórna flestu fyrir stól forsætisráðherra. Sama gildir um aðra sem sjá glitta í stóran stór fyrir sig eða sína. Þannig skrifar Svavar Gestsson ákall um faðmlag við íhaldið og er tilbúinn að kasta fyrir róða öllum prinsippum og stefnumálum VG. Hann veit fyrir víst að Svandís dóttir hans gengur að ráðherratign vísri. Gamli stríðsmaðurinn er orðinn meir og er til í að láta dóttur sína hoppa upp í hjá vondu auðvaldsseggjunum í Sjálfstæðisflokknum. Hver hefði trúað því á árum áður?
 
Svo virðist sem ýmsum forystumönnum VG svelgist á við tilhugsunina um að tryggja áframhaldandi valdasetu Sjálfstæðisflokks og Bjarna Benediktssonar eftir allt sem á undan er gengið.
 
Nýkjörinn varaformaður VG vill ekki að flokkur hans komi að ríkisstjórn þar sem Bjarni Benediktsson sé ráðherra enda “hafi hann skitið upp á bak” pólitískt, eins og varaformaðurinn orðaði það svo smekklega.
 
Þá situr í mörgum hvernig Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins beitti subbulegum niðurrifsauglýsingum gegn VG fyrir kosningar, sbr. Skatta-Glaða Skatta-Kata. Herferðin kostaði milljónir í boði fyrirtækja sem verja sérhagsmuni.
 
Einnig eru margir í forystu VG ekki búnir að gleyma því þegar skuggaformaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, talaði með niðrandi hætti um formann VG sem “gluggaskraut”.
 
Framkoma af þessu tagi verður seint fyrirgefin.
 
Hafni VG formlegum viðræðum við Framsókn og Sjálfstæðisflokk, gæti Katrín myndað stjórn með Samfylkingu, Viðreisn, Flokki fólksins og Pírötum. Hún hefði 32 þingmenn á bak við sig.
 
Miðju-og vinstri stjórn. Því ekki?
 
Þá fengju Panama-Prinsar og Tortóla-Töffarar tímabæra hvíld. Þjóðin myndi taka því fagnandi.
 
Rtá.