Spyrja má hvers vegna Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, segir ekki af sér í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna eins og Halldór Ásgrímsson gerði af miklu minna tilefni í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006.
Vinstri græn guldu afhroð í kosningunum fyrir hálfum mánuði og eru hvergi með í myndun meirihluta í sveitarstjórnum. Flokkurinn hlaut einungis 4 prósent atkvæða í Reykjavík, vígi bæði Katrínar og Svandísar Svavarsdóttur. Flokkurinn lýsti því yfir að hann tæki ekki þátt í myndun meirihluta og dettur því út úr meirihluta í Reykjavík.
Árið 2006 fékk Framsóknarflokkurinn 6,3 prósent fylgi í Reykjavík, og einn mann kjörinn af 15 borgarfulltrúum eins og þá var, og tók þátt í myndun meirihluta með Vilhjálmi Þ.Vilhjálmssyni sem varð borgarstjóri. Flokkurinn náði víða góðu kjörfylgi og fékk menn kjörna á stöðum þar sem Vinstri græn koma nú ekki við sögu. Framsóknarflokkurinn fékk 9,8 prósent á landsvísu í þessum kosningum – en samt sagði Halldór Ásgrímsson af sér í kjölfarið.
Í kosningunum í vor fengu Vinstri græn miklu minna fylgi en þetta og koma hvergi við sögu. En samt situr Katrín enn í sínum valdastól. Viðbrögð Halldórs voru heiðarleg árið 2006. Hið sama verður ekki sagt um viðbrögð formanns Vinstri grænna. Alla vega ekki enn. Völdin ganga fyrir öllu öðru.
Vinstri græn fengu einungis þennan eina mann kjörinn í Reykjavík á öllu höfuðborgarsvæðinu: Engan mann fengu þau kjörinn í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi eða í Mosfellsbæ. Ekki heldur í Reykjanesbæ, í Árborg, á Akranesi eða í Fjarðarbyggð svo dæmi séu nefnd. Flokkurinn er nánast alls staðar úti í kuldanum.
Fyrir utan þessa útreið í kosningunum er flokkurinn í algeru basli á Alþingi. Ljóst er að um bullandi ágreining er að ræða við Sjálfstæðisflokkinn um málefni flóttafólksins sem Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra vill reka úr landi og telur sig hafa til þess lagagrundvöll. Slík aðgerð yrði þvert á stefnu Vinstri grænna og hittir þá beint í hjartastað.
Jón hefur einnig orðið uppvís að blóðmerarhaldi þegar hann var bóndi í MIðfirði. Margir kalla það dýraníð. Jón tengisteinnig vafasömum lóðaviðskiptum sem eru til umfjöllunar þessa dagana og hafa heldur ekki orðið til að gleðja Vinstri græna. Jón og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra VG, sendu hvor öðrum harðorð skeyti í fjölmiðlum í liðinni viku. Ríkisstjórnin nötrar.
Þá gætir sívaxandi hneykslunar á tvískinnungi Katrínar Jakobsdóttur í afstöðu hennar til NATO. Hún hefur ítrekað andstöðu sína og Vinstri grænna við veru Íslands í NATO en samt mælir hún opinberlega með því að Finnland og Svíþjóð fái inngöngu í bandalagið. Katrín hikar ekki við að lýsa andstöðu sinni við bæði Evrópusambandið og NATO en svo brosir hún út að eyrum þegar hún hittir leiðtoga samtakanna, sem hún er svona mótfallin, á fundum í Brussel!
Það stendur ekki steinn yfir steini varðandi þessa framkomu hennar og undirstrikar það pólitískan tvískinnung, og mætti jafnvel tala um siðleysi í því sambandi.
Tími Katrínar á stjórnmálasviðinu er liðinn. Hvenær ætli hún sjái það sjálf og láti gott heita?
- Ólafur Arnarson.