Bjarni Benediktsson hefur ítrekað reynt að fá VG til liðs við sig við að mynda ríkisstjórn. Núna síðast bauð hann þeim að verða fjórði flokkurinn í stjórn hans með Viðreisn og BF.
Formaður VG hefur afþakkað vegna þess að þingflokkurinn er þverklofinn í afstöðu til samstarfs við Íhaldið.
Dagfari hefur heyrt að landsbyggðarþingmenn fyrir norðan vilja í stjórn með Sjálfstæðisflokknum til að geta staðið vörð með þeim um sérhagsmuni hinna ríku í sjávarútvegi og landbúnaði. Steingrímur J, Lilja Rafney, Bjarkey Olsen og varaþingmaðurinn Björn Valur sjá ekki sólina fyrir Íhaldinu og vilja umfram allt í eina sæng með þeim í samræmi við kröfur öflugra sægreifa í norðurkjördæmunum.
Þingmenn VG í þéttbýlinu vilja ekki samstarf við Íhaldið - telja það skýlaus svik við kjósendur sína.
Þá hefur Dagfari einnig heyrt að Ari Trausti Guðmundsson, nýr þingmaður VG í Suðurkjördæmi, telji það fásinnu að starfa með höfuðandstæðingnum.
Hann segist eiga annað erindi á Alþingi en að gerast handlangari Íhaldsins en hann var harður Maóisti sem ungur maður.
Dagfari telur að Vinstri græn séu ekki stjórntæk með hægri-og miðjuflokkum. Það hljóta menn að sjá.