Vinstri grá

Vefmiðillinn Miðjan veltir upp þeirri áleitnu spurningu hvort stjórnmálaflokkurinn VG sé Vinstri grænn eða Vinstri grár. Spurt er: „Katrín Jakobsdóttir tekur fullan þátt, með þeim Bjarna og Sigurði Inga, að finna leið til að hunsa umhverfismat vegna laxeldis á suðurfjörðum Vestfjarða. Miklir peningar eru í húfi, sem og náttúran. Hvað sem fólki þykir um þetta mál verður spennandi að sjá hvaða afstöðu VG og Katrín taka í málinu. Velja þau grænt eða grátt?“

Já, það verður spennandi að sjá hvernig ríkisstjórnin muni haga sér í þessu máli. Úrskurðarnefnd umhverfismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að sjókvíaeldi með núverandi sniði verði ekki leyft enda sé það hættulegt viltum laxastofnum við landið og geti skaðað þá með óafturkræfum hætti. Það er hlutverk Úrskurðarnefndarinnar að dæma um mál af þessu tagi. Hún er faglegur aðili sem er hafin yfir pólitík og hagsmuni einstakra fyrirtækja og landshluta. Þegar niðurstaða nefndarinnar lá fyrir risu hagsmunaaðilar upp og kröfðust þess að ríkisvaldið gripi inn í með nánast ólögmætum hætti.

Þetta mál er prófsteinn á siðferði ríkisstjórnarinnar. Er hún einungis í erindrekstri fyrir einstaka hagsmunahópa eða hefur hún prinsipp til að standa á? Því miður bendir flest til þess að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn líti á sig sem handlangara einstakra fyrirtækja og hagsmuna. Hætta er á að þeir séu meira en tilbúnir að fórna hagsmunum náttúrunnar fyrir stundarhagsmuni eins og hættulegt sjókvíaeldi við Vestfirði þar sem atkvæðin eru hvað dýrust. Ljóst er að þessir flokkar eru beittir gríðarlegum þrýstingi hagsmunaaðila sem skeyta ekkert um náttúru landsins.

Athyglin hlýtur að beinast öðru fremur að Vinstri grænum. Eru þeir í raun og veru náttúruverndarflokkur eða er það bara til skrauts? Grænu áherslunum hefur verið fórnað áður fyrir fjárhagslega hagsmuni eins og eiturspúandi verksmiðjan á Bakka við Húsavík er gott dæmi um. Steingrímur J. Sigfússon keyrði það umhverfisslys í gegnum kerfið á sínum tíma og taldi sig vera að gæta hagsmuna kjördæmisins með því. Eigum við að trúa því að forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir láti beygja sig til óhæfuverka vegna fiskeldis á Vestfjörðum? Láti hún undan og taki þátt í að sniðganga niðurstöðu réttra yfirvalda þá verður flokkur hennar VG ekki Vinstri grænn – heldur Vinstri grár. Það gæti orðið henni og flokknum dýrkeypt.

Fiskeldi er góðra gjalda vert ef það er stundað með réttum hætti sem skaðar umhverfið ekki. Þá er verið að tala um fiskeldi á landi eða fiskeldi úti á sjó í lokuðum kerfum sem eru hættulaus. Norðmenn, sem eru meðal fremstu þjóða heims í fiskeldi, hafa nú bannað sjókvíaeldi enda hefur það valdið óbætanlegum skaða á flestum laxveiðiám Noregs sem eru nú meira og minna ónýtar eftir eldislax sem sloppið hefur upp í árnar í stórum stíl og skemmt viltu laxastofnana. Um er að ræða óbætanlegt tjón og skelfilegt umhvefisslys.

Við skulum læra af biturri reynslu Norðmanna og stöðva sjókvíaeldi áður en það eyðileggur vilta laxastofna við Ísland og veiðiár okkar.

Förum að lögum og reglum. Látum úrskurði réttra yfirvalda standa. Látum hagsmunapotara ekki komast upp með inngrip.

Láti ríkisstjórnin undan kröfum ófyrirleitinna sérhagsmuna þá verður henni refsað grimmilega.

 

Rtá.