Þessi kaka er vægast sagt dásamleg og er fullkomin á grillið og það er ekkert skrýtið þó hún sé vinsælasti eftirréttur sumarsins. Það má ýmist grilla hana á útigrilli eða baka hana í ofni. Berglind Hreiðars okkar sívinsæli matar- og kökubloggari hjá Gotterí og gersemar á heiðurinn af þessari og er hrifnust af því að grilla hana. „Ég gerði hana á grillinu og það má vel útbúa kökudeigið sjálft með fyrirvara og síðan bara skella pönnunni á grillið stuttu áður en eftirrétturinn á að vera klár,“segir Berglind og virkilega ánægð með útkomuna.
S‘mores kaka
Botninn
120 g smjör við stofuhita
120 g púðursykur
2 egg
2 tsk. vanilludropar
200 g hveiti
1 tsk. matarsódi
¼ tsk. salt
80 g súkkulaðidropar (dökkir)
80 g saxað Marabou Daim Bites súkkulaði
- Þeytið smjör og púðursykur þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjunum saman við, einu í einu og skafið niður á milli.
- Næst fara vanilludroparnir saman við og þá hveiti, matarsódi og salt.
- Skafið deigið vel niður og blandið síðan súkkulaðinu saman við með sleif.
- Smyrjið pönnu/mót að innan með smjöri og þjappið deiginu síðan niður í botninn.
- Hægt er að geyma deigið plastað í kæli í allt að 3 daga áður en það er grillað/bakað en ekki er þó þörf á að kæla það sérstaklega sé ætlunin að baka kökuna strax.
- Hafið grillið við 180°C hita (gott að slökkva á brennaranum undir pönnunni og notast við óbeinan hita.
- Grillið/bakið kökuna með lokað grillið í 15 mínútur, bætið þá toppinum á og lokið aftur í 3-5 mínútur eða þar til sykurpúðarnir gyllast og súkkulaðið bráðnar.
Toppurinn
100 g Marabou Daim Bites súkkulaði
100 g Lu Digestive hafrakex (brotið niður)
30 g litlir sykurpúðar
130 g súkkulaðidropar (dökkir)
- Raðið öllum hráefnum ofan á kökuna þegar hún hefur verið 15 mínútur á grillinu og bakið áfram í 3-5 mínútur.
- Gott er að bera kökuna fram með ís.
Þessi er algjört lostæti og fullkomin á grillið./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.