Hér er á ferðinni ekta „Street Food“ matur úr smiðju Berglindar okkar Hreiðars sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar. Það er leikur einn að útbúa þennan rétt heima hjá sér og koma gestum skemmtilega á óvart með útkomunni. Um er að ræða hægeldað nautakjöt þar sem soyasósan spilar stórt hlutverk. Kjötið er síðan tætt niður og sett í naan brauð ásamt chili majónesi, osti og grænmeti.
„Það er hægt að nota hvaða nautakjöt sem er, hér notaði ég ungnauta innlæri en það er hægt að nota ribeye, snitsel eða annað, hægeldunin gerir allt kjöt svo meyrt og gott,“segir Berglind og elskar að framreiða rétti sem þessa á sumarlegan og skemmtilegan máta.
Uppskriftina fékk Berglind hjá Þórunni vinkonu sinni en hún hafði fallið fyrir þessum rétti hjá Önnu Birnu vinkonu sinni. „Svona fara uppskriftir víst á milli manna og skilst mér að upphaflega útfærslan af þessari uppskrift komi frá Gordon Ramsey og hafi tekið smá breytingum á leiðinni hingað. Hér kemur í það minnsta útfærslan frá Þórunni sem ég féll gjörsamlega fyrir í sumarbústaðarferð um árið.“
Hægeldað nautakjöt í naan
Fyrir 10-12 lítil naan brauð eða fyrir um 5-6 manns
Kjöt og marinering
700-800 g ungnautakjöt
200 ml Kikkoman soyasósa
200 ml ólífuolía
2 stk. lime (safinn)
150 g púðursykur
2 stk. ferskt chilli (saxað)
1 búnt af ferskum kóríander (saxað)
- Útbúið soyamarineringuna með því að blanda öllum ofangreindum hráefnum saman í skál (fyrir utan kjötið auðvitað).
- Takið rúmlega fjórðung til hliðar og setjið í skál inn í ísskáp til að bera fram með réttinum þegar hann er tilbúinn.
- Steikið kjötið örstutt við háan hita til að loka því, hellið restinni af marineringunni yfir, leyfið suðunni að koma upp og lækkið þá hitann vel niður, setjið lok á pönnuna/pottinn og leyfið að hægeldast þannig í 5-6 klukkustundir. Gott er að snúa kjötinu 2-3 sinnum á meðan til að allar hliðar liggi jafn lengi í marineringunni þar sem hún hylur kjötið ekki að fullu.
Ljúffengt meðlæti gerir gæfumuninn./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.
Chili majónes
- 200 g Hellmann‘s majónes
- 40 g Sambal Oelek
- 1 tsk. limesafi
- Allt hrært vel saman í skál og geymt í kæli fram að notkun. Einnig er hægt að nota tilbúið Chili majónes frá Hellmann‘s.
Annað meðlæti
Lítil naan brauð (10-12 stykki)
Kínakál (saxað)
Rauðlaukur (skorinn í sneiðar)
Ferskur kóríander
Rifinn cheddar ostur
Samsetning
- Setjið chili majónes í botninn á brauðinu ásamt káli og lauk.
- Næst kemur rifinn ostur og kjöt.
- Gott er að setja smá af soyamarineringunni yfir kjötið í lokin ásamt vel af ferskum kóríander. Einnig má setja sneiðar af fersku chilli.
Berið fram á skemmtilegan og aðlaðandi hátt.