Vindhögg skrímsladeildar sjálfstæðisflokksins

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, er lykilmaður í skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins ásamt Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og Óla Birni Kárasyni, hinum skattfrjálsa varaþingmanni flokksins.

Óttar birti í sínu nafni afurð skrímsladeildarinnar í Morgunblaðsgrein fyrir helgina. Um var að ræða innantóma árás á formann Viðreisnar sem hefur verið hrakin með afgerandi hætti af Benedikt sjálfum og einnig af FME eins og greint er frá í meðfylgjandi link frá Stundinni.


http://stundin.is/frett/fme-bregst-vid-fullyrdingum-um-vidskipti-benedikts/

Eftir þetta vindhögg ætti Óttar Guðjónsson að biðjast opinberlega afsökunar. Það mun hann ekki gera. Þeir sem þekkja Óttar vita að hann hefur ekki manndóm til þess.

Mun áhugaverðara verður að fylgjast með viðbrögðum stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga sem hlýtur að veita framkvæmdastjóranum opinbera áminningu fyrir hneykslanlega háttsemi eða jafnvel víkja honum úr starfi.

Dagfara er kunnugt um að skrímsladeild flokksins undirbýr frekari árásir á keppinauta flokksins.
Flokksins vegna verður að vona að næstu útspil deildarinnar verði ekki eins mikil vindhögg og grein Óttars.

Skrímsladeildin undirbýr árásir á Sigmund Davíð vegna vafasamra viðskipta hans í skattaskjólum á Tortóla og víðar. Þá reynir hún að finna eitthvað nothæft til að klína á Steingrím J Sigfússon. Leitar hún einkum fanga í \"skýrslu\" Guðlaugs Þórs og Vigdísar sem forseti Alþingis vísaði frá.

Verkefni skrímsladeildar er að beina athygli frá misgjörðum forystumanna Sjálfstæðisflokksins sem koma við sögu í Panamaskjölum vegna Tortóla. Það gildir bæði um Bjarna Benediktsson og Ólöfu Nordal. Eins óttast flokkurinn óþægilega upprifjun á ýmsu öðru vafasömu kringum Bjarna Benediktsson eins og t. d. Borgunarmálið alræmda. Því á að reyna að láta spillingarumræðuna í aðdraganda kosninga snúast sem mest um aðra stjórnmálamenn.

Þetta er hættuspil fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Einkum ef skrímsladeildin ræðst of harkalega á Steingrím J. því hann veit óþægilega margt um forystumenn Sjálfstæðisflokksins sem skelfilegt væri að fá upp á yfirborðið rétt fyrir kosningar.