Vindhögg Kjartans

Kjartan Magnússon, varaþingmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, berst nú fyrir sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningar.

Á dögunum tók Kjartan sæti á Alþingi. Tók hann sér þó ekki frí frá prófkjörsslagnum á meðan. Á síðasta degi sínum á þingi að sinni lagði hann fram fyrirspurn til Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, um skoðun á fjármálum Reykjavíkurborgar.

Fyrirspurn Kjartans er vindhögg og engum dylst að hún er sett fram í pólitískum tilgangi, ekki í þágu þjóðarinnar eða borgarbúa heldur fyrirspyrjanda sjálfs.

Hann spyr ráðherra hvort ráðuneyti hans hafi tekið „fjármál Reykjavíkurborgar til sérstakrar skoðunar í ljósi skuldastöðu borgarinnar og langvarandi ósjálfbærs reksturs hennar.“

Í greinargerð vísar varaþingmaðurinn í umsögn Reykjavíkurborgar um frumvörp sem lögð voru fram í apríl 2020 um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Í umsögninni kom fram að borgin væri í erfiðri fjárhagsstöðu og að ekki væri um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefndi í „algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.“

Svona málflutningur hjá reyndum sveitastjórnarmanni og fyrrum borgarfulltrúa flokkast undir lýðskrum. Umsögn Borgarinnar vegna hamfara og aðgerða sem höfðu gríðarlega alvarleg áhrif á stöðu bæði sveitarfélaga og ríkissjóðs er tekin úr samhengi og notuð til að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Hefði Kjartan viljað gera sveitarfélögum í landinu og borgarbúum gagn með nokkurra daga þingsetu sinni hefði staðið honum nær að leggja fram fyrirspurn til formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra um það hvort einhver skoðun hafi farið fram á því hvers vegna ríkið tryggir ekki sveitarfélögum landsins fullnægjandi tekjustofna á móti verkefnum og skyldum sem flutt eru frá ríki yfir til sveitarfélaga. Hann hefði einnig getað lagt fram tillögur um slíkt.

Staðreynd málsins er að öll sveitarfélög landsins standi frammi fyrir alvarlegum vanda vegna langvarandi og ósjálfbærs reksturs einmitt vegna þess að ríkið hefur hlaðið á þau verkefnum í skóla-, heilbrigðis- og félagsmálum og fleiri málaflokkum, án þess að tryggja tekjustofna til fulls á móti.

Staðreynd málsins er líka sú að Reykjavík er í sérflokki meðal sveitarfélaga vegna þess að ekkert sveitarfélag á viðlíka eignir á móti skuldum og Reykjavíkurborg. Nægir þar að nefna Orkuveitu Reykjavíkur sem dugar fyrir skuldum borgarinnar og gott betur, enda eitt verðmætasta fyrirtæki landsins.

Ekki sér fyrir endann á eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni. Pólitísk vindhögg varaþingmanna breyta þar engu um.

- Ólafur Arnarson