Fyrsta skoðanakönnun mælir ríkisstjórnina með mikinn stuðning. Viðbúið er að hratt muni fjara undan. Þó má gera ráð fyrir því að hveitibrauðsdagar geti staðið fram í febrúar á næsta ári.
Ástæðan fyrir vinsældum núna er einkum sú að kjósendur eru orðnir hundleiðir á fréttum af kosningum, stjórnmálamönnum og stjórnarmyndunarviðræðum. Það er því viss léttir núna. Þingið kemur saman í næstu viku og þá byrjar ballið. Þá fer fólk að sjá framan í staðreyndir varðandi loforð, efndir og svik.
Aðalvandi ríkisstjórnarinnar verður samt sá að innan stjórnarflokkanna eru svo margir ósáttir og með mikið óbragð í munni, einkum hjá VG og Sjálfstæðisflokki. Óánægjan mun krauma undir niðri og brjótast upp á yfirborðið þegar minnst varir. Tveir þingmenn VG, þau Rósa björk og Andrés Ingi, hafa ekki farið dult með skoðanir sínar og eru með ríkisstjórnina á skilorði. Þau hafa ekki sagt sitt síðasta orð og forysta VG getur alls ekki treyst á þau. Rósa Björk talaði hreint út og sagði ekki sjá að sitt hlutverk væri að endurreisa laskaðan Sjálfstæðifslokk til valda að nýju og tryggja enn laskaðri formanni þess flokks áfhaldandi völd. Þar hitti hún naglann á höfuðið. Þessi skoðau er býsna útbreidd innan VG.
Þá eru nokkrir af alþingismönnum Sjálfstæðisflokksins í átakanlegri fýlu vegna þess að þeir fá ekki sæti í ríkisstjórninni eða aðrar virðingarstöður sem virðist ekki vera nóg af eftir að flokkurinn missti 5 þingmenn í kosningunum og hlaut næst verstu kosningu til Alþingis í sögu flokksins. Jón Gunnarsson fer fremstur þeirra sem eru sárir og reiðir. Páll Magnússon og aðrir þingmenn Suðurlands eru einnig svekktir og sárir. Það gildir einnig um Brynjar Níelsson og Óla Björn Kárason sem eru afar þreyttir að kvennadekrinu í flokknum, það er að taka “stelpur” fram yfir þá í virðingarröðinni bara af því að þær eru “stelpur”. Erfitt er að átta sig á því hvenær þessir þingmenn og fleiri svekktir flokksmenn fá útrás fyrir reiði sína og hefndaraðgerðir.
Svo eigum við eftir að sjá hve öflug stjórnarandstaðan verður en fimm flokkar eru nú í stjórnarandstöðu. Ef Sigmundur Davíð nennir að sækja þingfundi, þá er viðbúið að hann muni ekki vanda ríkisstjórninni kveðjur og er reyndar byrjaður á því. Aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar munu trúlega ekki láta sitt eftir liggja.
Rtá.