Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla hans í útvarpsþættinum Brennslunni á FM957 í gær. Menn senda frá sér yfirlýsingar af ýmsu tilefni en ljóst má vera að Vilhjálmi er mikið í mun að sannleikurinn sé hafður að leiðarljósi – þó allir sjái að um góðlátlegt grín er að ræða.
Í yfirlýsingunni, sem er dagsett í gær, segir Vilhjálmur: „Við skýrslutöku í Brennslunni í morgun sagði ég aðspurður að ég lyfti 100 kílóum í bekkpressu. Ástæðan fyrir þessu svari mínu var sú að ég taldi mig vera í góðri trú um að Rikki G. Væri með spurningunni að vísa til þess hvað ég tæki í bekk með þeirri aðferð sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra notaði þegar hann taldi sig vera að færa sönnur á staðhæfingu sína í Brennslunni að hann lyfti 120 kílóum í bekkpressu.“
Vilhjálmur segir að eftir yfirheyrsluna hafi hann verið upplýstur um það af hlustanda Brennslunnar að sú aðferð sem Bjarni notaði við lyftuna, og birt var myndband af á Twitter þann 3. Febrúar síðastliðinn, væri ekki viðurkennd af Alþjóða Kraftlyftingasambandinu.
„Lyftan hjá Bjarna, sem átti að sanna að hann lyfti 120 kílóum í bekkpressu, var því ógild. Þegar af þeirri ástæðu er með öllu ósannað að Bjarni lyfti 120 kílóum í bekkpressu eins og hann fullyrti í Brennslunni.“
Vilhjálmur segir að með sama hætti sé ljóst að sú staðhæfing hans að hann lyfti 100 kílóum í bekkpressu er röng. „Vil ég nota tækifærið og biðja hlustendur Brennslunnar afsökunar á þessum mistökum mínum. Engu að síður er ljóst að hlustendur Brennslunnar eiga rétt á því að vita hvað ég tek í bekk. Þess vegna leitaði ég strax til viðurkenndra sérfræðinga í kraftlyftingum sem létu mig framkvæma lyftuna eftir staðli Alþjóða Kraftlyfingasambandsins (IPF).“
Vilhjálmur segir að lokum að það sé með stolti að hann geti upplýst hlustendur Brennslunnar um að hann lyfti 80 kílóum í bekkpressu með réttri og viðurkenndri aðferð. „Þessi mistök hafa jafnframt orðið mér hvatning til þess að gera betur og stefni ég á að geta lyft 100 kílóum í bekkpressu í sumarbyrjun. Ég geri orð Denny Crane (eins virtasta lögmanns Bandaríkjanna) að mínum: Never lost, nver will.“