Vill rykbinda götur höfuðborgarsvæðisins

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun, telur að rykbinda eigi götur á höfuðborgarsvæðinu. Í gær var styrkur svifryks hár í Reykjavík og er búist við því að svo verði einnig næstu daga. RÚV.is greinir frá.

Þorsteinn segir í samtali við RÚV það vera heilbrigðismál að draga úr svifryki. „Sannarlega er það það. Það er ekki eitt töframeðal til. Við þurfum að fara bæði í langtíma fyrirbyggjandi aðgerðir, sem er þá betri almenningssamgöngur, fá fleira fólk í almenningssamgöngur, gera þær hagstæðar.“ Svifrykið hefur t.a.m. slæm áhrif á heilsu þeirra sem þjást af astma og öðrum öndunarfærasjúkdómum.

Hann bendir á að í nágrannalöndunum sé brugðist við svifryki með því að rykbinda. „Á þessum verstu dögum eins og núna þá væri hægt að rykbinda. Það má kalla rykbindingu neyðarráðstöfun. Það er ekki fyrirbyggjandi til lengri tíma heldur þá erum við að taka einn dag í einu. Þannig erum við að slá á rykið á þessum verstu dögum. Það er eitthvað sem Reykjavíkurborg hefur verið að gera og fleiri sveitarfélög og Vegagerðin eru að skoða líka núna veit ég,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn telur þörf á að taka umræðuna í byrjun vetrar um það hvort nagladekk séu nauðsynleg, auk þess sem brýnt sé að halda götum hreinni. „Í Noregi hafa menn sett gjald á nagla sem hafa skilað færri bílum á nagladekkjum og minna sliti á malbiki. Svo svona yfir veturinn þarf að halda götum hreinni. Það er reyndar mjög erfitt að eiga við það yfir háveturinn en það þarf að þrífa óhreinindin af götunum. Það er ekki nóg að sópa. Það þarf að smúla líka og það er erfitt yfir veturinn að vera að hreinsa með vatni.“