Mæðginin Bjarni Gabríel Bjarnason og Eva Dögg Sigurgeirsdóttir eru í óðaönn að undirbúa fermingardag Bjarna Gabríels. Hann mun fermast 2. apríl næstkomandi og er fullur tilhlökkunar. Það er að mörgu að huga fyrir stóra daginn og Bjarni Gabríel tekur fullan þátt í undirbúningnum með móður sinni enda með sjálfstæðar skoðanir og veit hvað hann vill.
Í þættinum Matur og Heimili í kvöld mun Sjöfn Þórðar hitta mæðgin Bjarna Gabríel tilvonandi fermingardreng og Evu Dögg, móður hans, þar sem þau eru að leggja lokahönd á undirbúninginn fyrir stóra daginn, fermingardag Bjarna Gabríels.
Bjarni Gabríel hugsar vel um mataræðið og vill bjóða upp á hollar veitingar fyrir íþróttafólkið, sjálfur æfir hann fótbolta að fullum krafti.
„Á fermingardaginn langar mig að allir sem mér þykir vænt um séu með mér að halda upp á daginn. Ég vil að allir séu glaðir og að það sé mikið stuð í veislunni. Mig langar að hafa skemmtilegar veitingar bæði fyrir mig og vini mína og svo líka fyrir fullorðna. Mig langar að hafa poppvél, nammibar og selfí-box þar sem fólk getur tekið myndir. Svo langar mig bara að hafa geggjað stuð allan daginn og bara að eiga frábæran dag,“ segir Bjarni Gabríel þegar Sjöfn spyr hann hvernig draumarfermingardagurinn hans lítur.
Nammibarinn er líka á óskalistanum hjá Bjarna Gabríel. Hann borðar sjaldan sælgæti en ætlar að leyfa sér það á stóra deginum þegar hann fagnar fermingunni með þeim sem honum þykir vænt um.
„Sem móður finnst mér mikilvægt að vera í traustu og góðu sambandi við börnin mín og að undirbúa svona stóran dag eins og fermingardag barns er ótrúlega dýrmætt að geta gert saman. Bjarni Gabríel er mun opnari en ég var sem barn og miklu öruggari í eigin skin og hefur sjálfstæðar skoðanir. Það er svo gaman að vera í þessum undirbúningi með honum og leyfa honum að blómstra og gera daginn af sínum draumadegi,“segir Eva Dögg.
Blöðrurnar gefa lífinu lit og fá stóran sess í veislunni hjá Bjarna Gabríel. Draumalitirnar hans í veisluna eru blár og silfurlitaður tónað með hvítu inn á milli.
Bjarni Gabríel ætlar leyfa áhorfendum að fá sýnishorn af því hvernig veislu hann langar að bjóða gestum sínum upp á og Hrafnhildur Þorleifsdóttir blómaskreytir frá Blómagalleríinu við Hagamel mun verða mæðginum til halds og traust.
Lifandi blóm mynda heildarstemninguna
„Til að binda veitingaborðið saman eru lifandi blóm fullkomin og í þessu tilfelli gerði ég eina stóra skreytingu með fallegri samsetningu af afskornum blómum – það verður allt fallegra þegar blóm lenda á borðinu, “ segir Hrafnhildur og bætir við að það sé ótrúlega gaman að leika sér með blóm þegar kemur að því að skreyta í veislum. „Það er líka mjög fallegt vera með skreytingar á gestaborðunum, til að mynda misstóra glæra vasa þar sem villtir blómvendir eða stök fallega blóm raðast saman við og verða í raun upphafið að óskrifuðu ævintýri veislunnar, blóm eru svo mikið augnakonfekt.“
Lifandi og skemmtilegur þáttur framundan á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00 þar sem Bjarni Gabríel segir okkur frá því hvernig hans draumur um stóran daginn á að vera.
Hægt er sjá brot úr þættinum hér fyrir neðan: