Vilja bændur þá ekki bara stofna áburðarverksmiðju og reka hana?

Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtakanna segist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að endurreisa þurfi áburðarframleiðslu hér á landi, nýta græna orku og horfa jafnvel til útflutnings.

Hver á að gera það? Kannski ríkið sem greiðir bændum 700 milljónir á fjárlögum 2022 vegna verðhækkana á áburði? Ekki borgar ríkið verðhækkanir á aðföngum fyrir neina aðra atvinnugrein.

Formaður Bændasamtakanna lætur sem vandi áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, sem starfaði til 2001, hafi verið sá að Reykjavík hafi þanist út og allt í einu hafi Gufunes verið komið inn í miðbæ höfuðborgarinnar.

Ekki er þetta nú raunhæf lýsing hjá formanni bænda. Upphaflega var Áburðarverksmiðja ríkisins byggð fyrir Marshallpeninga og var rekin í áratugi – alltaf með tapi! Ekki hafði það neitt með nálægð við miðborgina að gera, þótt vitanlega sé óskynsamlegt að vera með mikla ammoníakframleiðslu í þéttbýli.

Rekstur áburðarverksmiðju hér á landi var glórulaus á sínum tíma og athyglisvert að formanni Bændasamtakanna finnist nú nauðsynlegt að einhver endurvekji slíkan rekstur hér á landi. Hver skyldi það nú vera, sem formaðurinn vill að endurveki áburðarframleiðslu? Það skyldi þó ekki vera að hann horfi til ríkisins?

Vilja bændur ekki bara gera þetta sjálfir. Trúi þeir því að tækifærið í áburðarframleiðslu hér á landi sé jafn stórkostlegt og formaður þeirra heldur fram hljóta þeir að ráðast sjálfir í uppbyggingu og rekstur áburðarverksmiðju.

Ríkið þarf alla vega ekki að prófa þetta aftur eftir áratuga taprekstur í Gufunesi.

Bændur verða bara að gera þetta sjálfir!

- Ólafur Arnarson