Vigdís Hauksdóttir mun leiða lista Miðflokksins í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum og býst við miklum byr sem von er enda mældist flokkurinn með 1,1% fylgi í nýrri skoðanakönnun Viðskiptablaðsins!
Þó nokkuð vanti upp á jarðtengingu hjá þingmanninum fyrrverandi, þá er víst að hún mun skreyta kosningabaráttuna og hleypa lífi í hana með hressilegum upphrópunum og órökstuddum tillögum. Hún er strax byrjuð. Vigdís er þegar búin að gefa það út að Miðflokkurinn stefni að 4-6 borgarfulltrúum sem er vel í lagt hjá flokki sem ennþá mælist einungis með 1,1%. Þá telur hún að kosningabaráttan muni snúast um staðsetningu Landsspítalans sem Alþingi ákvað fyrir mörgum árum. Löngu ákveðið og löngu afgreitt. Minnir helst á tilraun Davíðs Oddssonar til að láta kosningabaráttuna í forsetakosningunum 2016 snúast um þorskastríðið sem háð var á síðustu öld. Sú tilraun tókst alls ekki eins og allir muna.
Vigdís er einnig byrjuð að yfirbjóða. Hún ætlar að stórbæta starfskjör á leikskólum borgarinnar án þess að benda á hvernig hún ætlar að hækka útsvör eða fasteignagjöld á móti. Þó slík vinnubrögð séu afar ómerkileg, þá skila þau alltaf einhverju fylgi. Það gæti einnig gerst núna. Alls ekki er útilokað að Miðflokkurinn fái nokkurra prósentustiga fylgi sem gæti dugað til að fleyta Vigdísi inn í borgarstjórn enda er borgarfulltrúum nú fjölgað upp í 23. Miðflokkurinn fiskar í sama vatni og Sjálfstæðisflokkurinn og mun taka viðbótarfylgi sitt beint frá honum vegna þess hve líkir flokkarnir eru að grunnstefnu.
Því er spáð hér að Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Framsókn fái samtals 35% fylgi í Reykjavík og muni berjast um sama fylgið. Meiri líkur eru á að Vigdís Hauksdóttir komist inn í borgarstjórn heldur en fyrsti maður Framsóknar. Borgarbúar kæra sig lítið um sendingar úr sveitinni. Það hefur sýnt sig eins og Halldór Halldórsson er gott dæmi um. Vigdís er blómarós úr Flóanum en gæti frekar náð fylgi en sumir aðrir utan að landi vegna þess hve sérstök hún er í háttum og framkomu.
Vigdís getur alla vega kastað “gleri úr steinhúsi” sem er meira en flestir ráða við.
Rtá.