Viðreisn veldur pólitískum jarðhræringum

Þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Pálsson gengu í Viðreisn fyrir nokkrum dögum og sögðu sig úr Sjálfstæðisflokknum hófust pólitískar jarðhræringar hér á landi. Þær mestu í áratugi. Fyrrverandi formaður og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem jafnframt hafa gegnt fjölda ráðherraembætta og setið á þingi samtals í 30 ár, kveðja flokkinn og ganga til liðs við nýjan flokk. Hér eru á ferð pólitísk stórtíðindi og víst er að þau stíga ekki skref af þessu tagi nema eftir langa og vandaða yfirlegu.
 
Þorgerður Katrín mun leiða lista Viðreisnar í SV-kjördæmi sem er það stærsta á landinu með 13 þingmenn. Hún hefur gríðarlegt persónufylgi og mun sópa til sín atkvæðum. Þetta vita hinir flokkarnir og því hefur skjálftavirkni í kjördæminu náð nýjum hæðum. Þorgerður hefur áður leitt lista í þessu kjördæmi. Það var vorið 2007 fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem náði 45% atkvæða undir hennar forystu. Vorið 2009 var hún í öðru sæti á eftir Bjarna Benediktssyni. Forysta hans skilaði mun minna fylgi, enda aðstæður aðrar og verri.
 
Fram hefur komið í viðtölum við Þorstein en þó einkum Þorgerði Katrínu að ekki hafi verið búist við því að allir tækju brottför þeirra af yfirvegun. Þau hafi átt von á köldum kveðjum frá ýmsum. Það hefur komið á daginn og verður að segjast að hingað til hefur allt verið fyrirsjáanlegt í þeim efnum; skætingur frá Útvarpi Sögu, Þór Saarí, Birni Bjarnasyni, Morgunblaðinu, Halli Hallssyni og snillingum bloggheimanna, þeim sem eru “virkir í athugasemdum” að eigin sögn. Nokkrir tugir einstaklinga sem aldrei sjá sólina koma upp.
 
Miklu fleiri fagna því hve margir glæsilegir og öflugir frambjóðendur eru komnir fram á vegum Viðreisnar og eru þó alls ekki allir upp taldir. Umræða um stjórnmál á Íslandi hefur einkennst mjög af því hin síðari ár að það vanti öflugt fólk til að sitja á Alþingi og í ríkisstjórnum. Flestir eru sammála um að nú sé mikill hörgull á hæfum þingmönnum á Íslandi. Gildir það um alla flokka þó ekki verði taldir upp þeir þingmenn sem komið hafa inn á þing og horfið þaðan út eða eru að hverfa þaðan án þess að hafa skilið eftir sig nokkur þau spor sem skipta máli eða gera gagn.
 
Það er því eðlileg krafa kjósenda að þegar nýr alvöruflokkur kveður sér hljós, þá tefli hann fram öflugu fólki sem er líklegt til að gera gagn á Alþingi og láta gott af sér leiða fyrir þjóðina. Flestir virðast vera sammála um að mikilvægt sé að auka til muna virðingu Alþingis. Það verður ekki gert nema með því að tefla fram mun öflugra fólki til þingsetu en verið hefur í nokkur ár.
 
Tilkoma Viðreisnar mælist vel fyrir hjá mörgum kjósendum. Flokkurinn er miðju-hægriflokkur, borgaralega sinnaður og alþjóðlegur í hugsun. Hann mun sækja í fylgi á miðjunni og yfir til hægri. Hann mun sækja fylgi til þeirra sem hafa sagt skilið við fjórflokkinn gamla og eru leitandi. Margir þeirra hafa dvalið við Pírata en munu nú hafa fleiri nýja alvörukosti til að velja úr, Viðreisn og jafnvel fleiri. Nýjir flokkar hljóta að skora á hólm þá flokka sem hafa varið hagsmuni þeirra fáu og ríku, einkum sægreifa og bænda.
 
Það er einkum þess vegna sem gæslumenn þessara hagsmuna eru reiðir og hræddir þessa dagana. Tal vinstri manna um að Viðreisn sé klofningur úr Sjálfstæðisflokknum fær ekki staðist því flokkurinn sækir fylgi sitt miklu víðar en þangað. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á hraðferð út á hægri kantinn og þangað verður hann ekki eltur, nema þá af Framsóknarflokknum. Mest fylgi er á miðjunni og þangað sækja nýjir flokkar; Viðreisn sækir í hægri hluta miðjunnar en Píratar í vinstri hlutann.
 
Athygli hefur vakið að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur hamast við að lýsa því yfir í viðtölum síðan Þorsteinn og Þorgerður Katrín yfirgáfu flokkinn að hann óttaðist Viðreisn ekki. Það er gott að Bjarni haldi ró sinni sem lengst. Meini hann þetta, þá er hann ekki vel læs á pólitísk teikn.
 
Gamall forystumaður Sjálfstæðisflokksins og Moggans, Styrmir Gunnarsson, viðurkennir hins vegar að Viðreisn sé ógn við Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkingu og Pírata og muni taka fylgi frá þeim öllum. Öndvert við formann Sjálfstæðisflokkinn vill hann nota tækifærið til uppstokkunar í þeim flokki. Styrmir vill horfast í augu við öll þau mistök sem flokkur hans hefur gert. Hann vill sýna kjark og hætta að sópa fortíðar-og nútíðarvanda flokksins undir teppið. Það er ólíkt viturlegra en það sem formaðurinn virðist boða.
 
Ekkert verður gert við slíkar tillögur frá Styrmi eða öðrum gömlum og reyndum þulum flokksins. Þeir ráða engu lengur. 
 
Bjarni Benediktsson ræður og fær allt næði sem hann vill til að láta flokkinn skreppa saman undir sinni forystu. Eða forystuleysi.