Ef Viðreisn á að ná árangri í komandi kosningum þarf flokkurinn að fá nýjan formann sem leiðir flokkinn í kosningunum.
Löngu áður en kom til stjórnarslitanna var ljóst að Viðreisn yrði að breyta um forystu sem fyrst. Ekki þarf annað en að vitna í niðurstöður allra skoðanakannana í 8 mánuði til að sjá það. Viðreisn hefur verið að mælast með á bilinu 4,5 - 6% fylgi allan þann tíma. Í formannstíð Benedikts hafa kjósendur verið að senda flokknum þau skilaboð að Viðreisn gæti þurrkast út af þingi.
Viðreisn fékk 10,5% atkvæða í kosningunum 2016 og 7 þingmenn kjörna. Það þótti býsna góður árangur hjá nýjum flokki.
Síðan hefur fylgið farið niður ef marka má skoðanakannanir. Ástæður fylgistapsins má einkum rekja til Benedikts formanns. Hann hefur samið frá Viðreisn mörg af stefnumálum flokksins, svikið kosningaloforð, beitt sér fyrir ósvífnum skattahækkunum og þótt koma klaufalega fram eins og t. d. þegar hann ætlaði að taka seðla úr umferð og var strax gerður afturreka með það.
Benedikt Jóhannesson \"selur\" ekki á hinum pólitíska vettvangi. Því verður Viðreisn að skipta strax um forystu annars er viðbúið að flokkurinn komi engum á þing í komandi kosningum.
Ef Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir eða Þorsteinn Víglundsson tækju við formennsku í Viðreisn á næstunni og leiddu flokkinn í kosningabaráttunni þá má vænta þess að Viðreisn komi sterk inn í kosningabaráttuna og næði góðum árangri í kosningunum. Þá er átt við fylgi á bilinu 10 - 15%.
Viðreisn heldur opinn fund flokksmanna um næstu helgi þar sem línur verða lagðar.
Vonandi átta fundarmenn sig þá á mikilvægi þess að skipta um formann og koma þeirri kröfu nógu skýrt á framfæri.
Benedikt vann vel við að koma Viðreisn af stað. Enginn gerir lítið úr því merka frumkvöðulsstarfi. En hann þarf einnig að þekkja sinn vitjunartíma og víkja nú úr formannsstóli.
Rtá.