Fylgið heldur áfram að hrynja af Vinstri grænum. Nú er svo komið að flokkurinn er í fimmta sæti af átta þingflokkum með einungis 10.3% fylgi samkvæmt nýrri Gallup-könnun en fékk 16.9% í þingkosningunum fyrir ári. Vinstri græn hafa tapað 40% af því fylgi sem flokkurinn hlaut í kosningunum. Þá náðu Vinstri græn 11 þingmönnum en eru nú komin niður í 7 og hafa tapað 4 þingmönnum samkvæmt þessari könnun. Ef kosið yrði núna og niðurstöður yrðu í samræmi við Gallup-könnunina, féllu eftirtaldir þingmenn Vinstri grænna út af Alþingi: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Andrés Ingi Jónson.
Nú er svo komið að Viðreisn er orðin stærri en VG. Viðreisn hlaut 6.7% í kosningunum en er komin í 10.7% núna og hefur aukið fylgi sitt um 60%. Píratar eru einnig stærri en VG með 11.5%, að ekki sé talað um hástökkvarann Samfylkinguna sem fengi 19.3% en var með 12.1% í kosningunum og hefur einnig bætt við sig 60% fylgi á kjörtímabilinu eins og Viðreisn.
Einnig er athyglisvert að sjá að Miðflokkurinn mælist nú með 9.8%, einungis hálfu prósentustigi á eftir VG. Ekki þyrfti að koma á óvart að Miðflokkur færi fram úr VG í næstu Gallup-könnun. Þá væru engin núverandi þingflokkar neðan við VG aðrir en smáflokkarnir Framsókn og Flokkur fólksins sem mælast með í kringum 6% fylgi.
Athyglisvert er að sjá að fylgi stjórnarflokkanna er komið niður í samtals 41.9%, nánast hið sama og miðflokkarnir Samfylking, Viðreisn og Píratar eru með en þeir njóta fylgis 41.5% kjósenda samkvæmt Gallup núna. Þessir þrír miðjuflokkar eru með svipaðar skoðanir á evru, ESB og vanda íslensku krónunnar á meðan núverandi ríkisstjórnarflokkar aðhyllast einangrunarstefnu og andstöðu við ESB og evru. Óhætt er að lesa í þessa þróun vaxandi óþol kjósenda gagnvart þeim vanda sem íslenska krónan veldur, t.d. varðandi vaxtakjör fólks og fyrirtækja.
Framundan eru mikilvægir flokksfundir og þing hjá Vinstri grænum. Katrín Jakobsdóttir er ekki öfundsverð að standa frammi fyrir flokksfélögum sínum sem formaður flokks sem missir stöðugt fylgi og í forsvari fyrir ríkisstjórn sem væri kolfallin ef skoðanakannanir gengju eftir. Ætla má að róstursamt geti orðið á þessum fundum enda eru sósíalistar ekki þekktir fyrir að hafa mikla þolinmæði eða mikið úthald í mótbyr.
Loks er allt í lagi að minna á bága stöðu Framsóknarflokksins sem að sönnu má muna fífil sinn fegurri. Ekki er lengra síðan en fimm ár að flokkurinn fékk 25% greiddra atkvæða í Alþingiskosningum. Það var árið 2013 í formannstíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Nú mælist fylgi flokksins 6.6% og er komið niður undir einn fjórða af því sem var í kosningunum 2013.
Óvinsældir ríkisstjórnarinnar munu halda áfram að aukast. Spennandi verður að fylgjast með því hvenær Vinstri græn fara niður í eins starf prósentutölu og hvenær Framsókn fer niður fyrir 5% sem er lágmark til að koma fulltrúum á þing. Hvoru tveggja gæti gerst fyrir lok þessa árs.
Rtá.