Vart hefur orðið við mikið uppnám og fjaðrafok á vettvangi íslenskra stjórnmála eftir að Viðreisn byrjaði að fá á sig svip umfram þann trausta og ákveðna svip sem Benedikt Jóhannesson hefur sett á flokkinn. Hann var lengi einn á sviðinu og farið var að spyrja hvort flokkurinn ætlaði að tefla honum einum fram. En nú hafa fleiri verðandi forystumenn flokksins stigið fram og hermt er að margir aðrir muni birtast á næstu dögum.
Það vakti gríðarlega athygli í vikunni þegar Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins tilkynnti um framboð sitt fyrir Viðreisn. Hann mun leiða annan lista flokksins í Reykjavík. Þá vakti framboð Pavels Bartoszek ekki síður athygli en hann hefur verið virkur í starfi yngri flokksmanna í Sjálfstæðisflokknum og einn að meðlimum Deiglu-hópsins svokallaða sem hefur verið mikilvægur í flokksstarfinu. Þá hefur komið fram að Jóna Sólveig Elíasdóttir kennari við HÍ og Gylfi Ólafsson heilsuhagfræðingur af Vestfjörðum sækjast einnig eftir forystusætum. Það eru því komin fram 5 nöfn hjá Viðreisn af þeim 126 sem verða samtals á framboðslistum flokksins.
Þó ekki fleiri nöfn hafi komið opinberlega fram, veldur þetta skjálfta. Ýmsir álitsgjafar eru fljótir að draga ályktanir þó Náttfari telji rétt að bíða eftir að listarnir birtist áður en hann staðsetur flokkinn endanlega í hinu pólitíska litrófi okkar. Viðreisn verður alla vega frjálslyndur og alþjóðasinnaður flokkur sem teygir sig frá hægri og vel inn á miðjuna. Hve langt inn á miðjuna á eftir að koma í ljós.
Einn þeirra sem var fljótur að draga ályktun af framboði Þorsteins og Pavels er Styrmir Gunnarsson, sá þrautreyndi stjórnmálarýnir og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann mat framboð þeirra “sterk”. Sagði svo um frambjóðendur Viðreisnar: “Fleiri framboð af þessum styrkleika munu leiða til þess að Viðreisn verði hættulegur keppinautur bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vegna þess að Viðreisn höfðar til beggja átta með framboði sínu.”
Fréttablaðið birti eftirfarandi í dálki sínum Frá degi til dags undir fyrirsögninni Stórpólitísk tíðindi: “Það hefur aldeilis hlaupið á snærið hjá stofnendum Viðreisnar núna þegar Pavel Bartoszek og Þorsteinn Víglundsson hafa ákveðið að ganga til liðs við stjórnmálahreyfinguna. Viðreisn gæti orðið stjórnmálaafl sem þeir, sem vildu eitthvað annað en fjórflokkinn, geta hugsanlega sætt sig við. Því er líklegt að Viðreisn muni ekki einungis höggva í fylgi sjálfstæðismanna, Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar. Heldur muni þeir einnig klípa fylgi af Pírötum, sem eru bæði þjakaðir af innanflokksátökum og í vondri stöðu eftir ákvörðun Helga Hrafns Gunnarssonar um að bjóða sig ekki fram.”
Ýmsir aðrir hafa fjallað um þessi tíðindi. Ítarlegust og best er samantekt Kjarnans sem birt er í grein eftir Þórð Snæ Júlíusson, Frjálslyndir flýja Sjálfstæðisflokkinn. Þá hefur Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, birt hugsanir sínar um málið. Þær einkennast að sjálfsögðu af illvilja einum saman eins og við mátti búast.
Náttfari gerir ráð fyrir því að Viðreisn muni nú mælast sterkari í næstu skoðanakönnunum og stíga hægt og bítandi fram að kosningum þann 29. október nk. Ætla má að nú fækki hratt í hópi óákveðinn og þeirra sem neita að gefa sig upp í skoðanakönnunum og væri allt eins líklegt að talsvert af þeirri tilfærslu færi yfir á Viðreisn. Þá má ætla að þeir sem nefnt hafa Pírata í skoðanakönnunum síðsutu 12 mánuði vegna þess að þeir hafa gefist upp á fjórflokknum, muni nú geta snúið sér að Viðreisn. Fylgi Pírata mun minnka hratt á næstu vikum.
Niðurstöður úr stórum skoðanakönnunum verða birtar í næstu viku. Náttfari spáir því að þá verði Viðreisn komin í 12% og hækki úr þeim 9% sem flokkurinn hefur mælst með í sumar. Með sígandi lukku fram að kosningum gæti flokkurinn endað í 20% fylgi og þyrfti þá að hækka um 1% á viku til kjördags. Það er í sjálfu sér ekkert óraunhæft ef vel tekst áfram til við val á frambjóðendum flokksins. Fái Viðreisn 12% í næstu könnun, gæti fylgi annarra framboða litið svona út: Píratar 22%, Sjálfstæðisflokkur 22%, VG 16%, Framsókn 10%, Samfylking 10%, BF 5% og aðrir 3%.
Þessa dagana er Viðreisn eins og minnkur í hænsnakofa íslenskra stjórnmála. Við sjáum svo hverju fram vindur en víst er að spennandi haust er framundan.