Viðreisn inni en flokkur fólksins úti ásamt bjartri framtíð

Línur eru að skýrast varðandi fylgi flokka ef marka má nýja skoðanakönnun sem Fréttablaðið birtir í dag. Könnunin var gerð í gær, reyndar að mestu leyti áður en fréttir bárust af lögbanni á umfjöllun Stundarinnar um vafasöm umsvif Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans. Hætt er við að lögbannið verði ekki til að hjálpa Sjálfstæðisflokknum á lokaspretti kosningabaráttunnar þó svo hann eigi engan þátt í þeirri umdeildu ákvörðun að efna til lögbanns.

Helstu tíðindi þessarar skoðanakönnunar eru þau að Viðreisn fengi menn kjörna á þing en bæði Flokkur fólksins og Björt framtíð næðu ekki tilskyldu lágmarksfylgi til að koma mönnum að.

Margir hafa spáð því að fimm flokkar yrðu með svipað fylgi í kosningunum og fengju samtals um 30 þingmenn en Sjálfstæðisflokkur og VG fengju samtals 33 þingmenn. Nýjasta könnunin bendir til þess að þannig gæti farið.

Þá er verið að gefa sér að Samfylking, Viðreisn, Píratar, Framsókn og Miðflokkurinn fengju kringum 9% hver flokkur og 6 þingmenn hver þeirra. Alls  um 30 þingmenn en VG og Sjálfstæðisflokkur hina 33 þingmennina. Fram að þessu hafa Vinstri grænir verið stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í flestum skoðanakönnunum og þannig er það ennþá samkvæmt Fréttablaðinu í dag en þar er gert ráð fyrir að VG fái 19 þingmenn en Sjálfstæðisflokkur 15 þingmenn. Reynslan sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn kemur alltaf betur út í kosningum en skoðanakönnunum og því þyrfti ekki að koma á óvart að staða þessara tveggja flokka gæti snúist við í kosningunum sjálfum þannig að Sjálfstæðisflokkurinn yrði heldur stærri en VG.

Í ljósi alls þessa þyrfti ekki að koma á óvart að þessi yrði niðurstaða kosninganna:

Sjálfstæðisflokkur 18 þingmenn, Vinstri græn 15 þingmenn, Píratar 7 þingmenn, Samfylking, Viðreisn og Miðflokkur 6 þingmenn hver flokkur og Framsókn 5 þingmenn. Björt framtíð, Flokkur fólksins og önnur framboð kæmu ekki fulltrúum á þing.

Niðurstaða af þessu tagi hefði í för með sér fjögurra flokka ríkisstjórn – nema Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn næðu saman um myndun tveggja flokka ríkisstjórnar.

 

Rtá.