Viðreisn ætlar ekki að hækka skatta heldur beita aðhaldi – skýr skilaboð þarf frá toppnum með því að loka óþörfu ráðuneyti

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur sagt að flokkur hennar vilji ekki hækka skatta komist hann í ríkisstjórn eftir komandi kosningar heldur muni flokkurinn beita sér fyrir aðhaldi í opinberum rekstri og aukinni ráðdeild í ríkisfjármálum. Unnt sé að senda skilaboð frá toppnum með því að spara í efstu lögum stjórnkerfisins. Fráfarandi vinstri stjórn fjölgaði ráðherrum og ráðuneytum sem hefur reynst óþarfi, raunar hið mesta bruðl.

Það væri til dæmis alveg tilvalið að leggja niður það óþarfa ráðuneyti háskólamála, vísinda og iðnaðar sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur stýrt. Þannig mætti fækka um einn ráðherra. Verkefni ráðuneytisins mætti færa yfir í mennta-og barnamálaráðuneytið að hluta en málefni iðnaðar færðust yfir í ráðuneyti viðskipta, ferðamála og menningar sem væri mun heppilegri vettvangur fyrir málefni iðnaðar. Með þessu yrðu send út skilaboð um að opinber starfsemi eigi ekki að þenjast endalaust út, hún geti einnig dregist saman með því að leggja niður óþarfa embætti. Smáþjóð eins og Ísland hlýtur að komast af með ellefu ráðherra, jafnvel færri.

Þá er vert að beina athygli að því að nú er svo komið að hver ráðherra hefur tvo aðstoðarmenn á sínum snærum. Auk þess eru allir þingflokkar með sérstaka aðstoðarmenn sem kostaðir eru af ríkissjóði fyrir svo utan beina ríkisstyrki til stjórnmálaflokkanna. Samtals nemur kostnaður skattgreiðenda vegna þessa meira en milljarði á ári. Bent hefur verið á að stjórnmálaflokkarnir séu nú meira og minna ríkisreknir og mikið hafi dregið úr styrkjum til þeirra frá fólki og fyrirtækjum eins og áður tíðkaðist. Með því að heimila ráðherrum að hafa einungis einn aðstoðarmann mætti spara 12 hátt launuð opinber störf. Hér er einungis um að ræða dæmi um það sem mætti og ætti að gera í öllu opinbera kerfinu. Góð skilaboð eru í því fólgin að byrja á toppnum í efsta lagi stjórnsýslunnar.

Fram hefur komið að stofnanir ríkisins munu nú vera 160 talsins. Áður en vinstri stjórnin hrökklaðist frá vannst henni þó ráðrúm til að láta samþykkja í þinginu að setja á fót enn eina stofnunina, Mannréttindastofnun Íslands. Búið er að tilkynna að fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Kári Kristjánsson, verði formaður þessarar nýju stofnunar. Hve fjölmenn hún verður hefur ekki verið tilkynnt en ekki þyrfti að koma á óvart þótt fljótlega verði komnir nokkrir tugir embættismanna þar á launaskrá – nema ný ríkisstjórn taki í taumana.

Mikilvægt er að ríkisstofnunum verði fækkað með sameiningum, hagræðingu og með því að leggja niður þá starfsemi sem hefur ekki brýn verkefni með höndum. Utanríkisráðherra sagði í sjónvarpsþætti nýlega að það geti ekki gengið að 400 þúsund manna dvergþjóð eins og okkar þurfi að reka 160 stofnanir. Það eru orð að sönnu þó að sjö ára stjórnarsamstarf hafi ekki leitt til neinna tiltekta á þessu sviði enda hefur stefnan einkennst af stjórnleysi og taumlausri útþenslu ríkisbáknsins. Sjálfstæðismenn virðast fyrir löngu vera búnir að gleyma kjörorðinu góða BÁKNIÐ BURT sem þeir kynntu á áttunda áratug síðustu aldar. Er ekki kominn tími til að rifja þetta prýðilega slagorð upp?

Þeir flokkar sem vilja ekki skattahækkanir hafa allir talað um að draga þurfi úr ríkisútgjöldum og einnig að hraða sölu tiltekinna ríkiseigna til að lækka skuldir ríkissjóðs og þar með þá miklu vaxtabyrði sem liggur á ríkissjóði og nemur nú 120 milljörðum króna á ári sem er vitanlega alveg galið. Í tíð fráfarandi vinstri stjórnar hefur verið verulegur halli á ríkissjóði öll árin sjö að tölu. Nú bætist áttunda hallaárið við, en fjárlög ársins 2025 voru afgreidd með 60 milljarða halla frá Alþingi í vikunni. Ríkisskuldir hafa tvöfaldast í tíð fráfarandi stjórnar. Með sölu tiltekinna ríkiseigna verður unnt að greiða niður skuldir og minnka vaxtaklafa ríkissjóðs. Ljúka þarf sölu Íslandsbanka hið fyrsta og taka svo til við að selja hlutabréf ríkisins í Landsbankanum. Sá hlutur sem eru mjög verðmikill og ættu hlutabréfin að vera auðseljanleg, til dæmis til íslenskra lífeyrissjóða og þar með landsmanna. Sala á þessum hlutabréfum gæti skilað ríkissjóði allt að 500 milljörðum króna til lækkunar ríkisskulda.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur sagt að Viðreisn muni ekki styðja sölu á eignarhlutum ríkisins í Landsvirkjun. Það er rökrétt en ríkið nýtur góðs af mjög miklum arði af Landsvirkjun sem mun trúlega einungis aukast á komandi árum. Hins vegar gæti alveg verið heppilegt að selja eignarhluti í öðrum ríkisfyrirtækjum ef aðstæður leyfðu. Dæmi um það gætu verið Landsnet, Rarik og Ísavía auk ýmissa fasteigna sem ríkissjóður þarf ekki nauðsynlega að eiga.

Ný ríkisstjórn ætti strax í byrjun að setja af stað skoðun á því hvers vegna stjórnarráðið hefur þanist eins mikið út og raun ber vitni. Embættismönnum ráðuneyta hefur fjölgað gríðarlega án þess að verkefni þeirra hafi aukist að ráði. Hvað veldur? Fá þarf svör við því hvort um brýna nauðsyn hefur verið að ræða eða langvarandi stjórnleysi og lausatök í aðhaldi.

Það þarf að fara varlega með skattpeninga fólks og fyrirtækja. Í þeim efnum er mikil ábyrgð lögð á stjórnmálamenn og þeir verða dæmdir af verkum sínum. Aðhald og ráðdeild frá æðstu lögum stjórnkerfisins eru mikilvæg og góð skilaboð út í allt kerfið. Eftir höfðinu dansa limirnir.

- Ólafur Arnarson