Við sem samfélag skuldum þeim, þær skulda okkur ekkert

„Ef þær konur sem að sögn Borgarleikhússstjóra hafa sakað Atla Rafn leikara um kynferðislegt og kynbundið áreiti stíga ekki fram núna með sakargiftir þá var þessi Metoo bylting til lítils.“

Svona hljóma orð manneskju sem skilur ekkert hvað #metoo snýst um. Það snýst ekki um að þolendur opinberi sig og skelli hjarta sínu og sársauka fyrir framan alþjóð. Ekki heldur um hvað gerendur eiga erfitt í kjölfarið á að þeir séu ásakaðir og hvað það sé slæmt fyrir mannorð þeirra.

Alla tíð hafa þolendur horft upp á þá staðreynd að orð þeirra eru dregin í efa, orðspor þeirra dregið í svaðið og líf þeirra lagt í rúst fyrir að segja frá. Núna þegar gerendur þurfa að taka einhverskonar ábyrgð og þolendur eru farnar að standa saman er fólk farið að óska eftir gömlu tímunum, þegar karlar gátu gert það sem þeir vildu. Miklu auðveldari tímar, þegar þolandi gat verið fórnarlambið og vondikallinn allt á sama tíma! Þegar enginn fann fyrir afleiðingum ofbeldisins nema sú sem var beitt ofbeldinu, og ábyrgðin var hennar líka.

\"\"

Koma #metoo breytti umræðunni. Hún er erfiðari, átakanlegri, og með áherslu á gerendur og gjörðir þeirra. Ég sætti mig ekki við þau skilaboð að við ættum að skella okkur aftur á tímann fyrir #metoo þar sem þolendur stóðu einar, trúverðugleiki þeirra og mannorð í klóm þeirra sem var skítsama um þær og hag þeirra. Mér er sama um orðspor og mannorð manna sem eru margásakaðir um kynferðislega áreitni, og ég hef enn minni samúð með því hversu erfitt það er fyrir þá að konur hafi sagt frá.

Þolendur hafa rétt á að segja frá án þess að alþjóð viti hverjar þær eru. Þær bera ekki ábyrgð á ofbeldinu, né bera þær ábyrgð á mannorði þeirra sem beittu þær ofbeldi. Steinunn Ólína er að krefjast þess að þolendur stígi fram til að \"leysa\" þetta mál, en opinberun á því hverjar þolendur eru munu ekki leysa neitt nema ykkar eigin þörf til að finna þægilegra skotmark.

Þau sem krefjast þess að vita hverjar þolendur eru hafa ekki áhuga á að leysa þetta mál. Þau vilja efast um orð þeirra, draga orðspor þeirra í gegnum smásjá þolendaskömmunar, og gera tilraun til að hreinsa mannorð geranda.

Mér þykir það leitt, kæra gerendavæna samfélag, en þolendur bera ekki ábyrgð á lífi gerenda né skulda þær okkur að segja frá öllu á opinberum vettvangi. Við sem samfélag skuldum þeim, þær skulda okkur ekkert. Að vernda þolendur er ekki #metoo baráttunni til háðungar. Það er merki um hvað baráttan er mikilvæg og áhrifarík.

Upphaflega birt á Facebook.

Elísabet Ýr Atladóttir