Við og kína – wikileaks og pence

Það er mikill misskilningur hjá varaforseta Bandaríkjanna að Íslendingar hafni samvinnu við Kínverja. Við höfum gert við þá ýmsa mjög merkilega samninga á þessum áratug.

Merkastur var samningur um fríverslun Íslands og Kína. Evrópuþjóðir stóðu þá í röðum til að gera slíka samninga – og tókst ekki. Hann mun reynast Íslendingum mjög vel til langrar framtíðar. Fleiri samninga gerðu Íslendingar líka fyrir minna en áratug sem engar Evrópuþjóðir hafa leikið eftir.

Mestu skiptir þó að Kínverjar réttu okkur hjálparhönd í bankahruninu meðan Bandaríkjamenn gerðu ekkert. Þeir féllust á að gera við okkur gjaldmiðlaskiptasamninga á nákvæmlega sama tíma og Bandaríkjamenn höfnuðu að rétta okkur svo mikið sem litla fingurinn. Þvert á móti – einsog datt út úr ræfli mínum í umdeildu sjónvarpsviðtali - Bandaríkin sýndu okkur fingurinn!

Þennan samning við Kína þurfti aldrei að virkja. Hann dugði nefnilega til þess að slíta breska Icesave-beislið af frændþjóðum, sem næst okkur standa, og fá loks marglofuð en seingreidd gjaldeyrislán.

Bandaríkin eru vinaþjóð sem ber að virða, og sjálfsagt að taka á kurteisi á móti varaforseta þeirra. Hann má nota heimsóknina til að viðra allar sínar skoðanir – líka neikvæð viðhorf sín til Kína.

Þá er hins vegar rétt að Íslendingar hafi í huga að Kínverjar réttu okkur hjálparhönd þegar á þurfti að halda. Á sama tíma höfnuðu Bandaríkin hins vegar alfarið aðstoð við örsmáa vinaþjóð á heljarþröm. Stóð þó ágætur sendiherra þeirra hér á landi nánast grátandi á þröskuldi Hvíta hússins yfir örlögum Íslands og tómlæti valdsmanna sinna.

Þegar Pence varaforseti hallar sólbrúnu höfði á kodda sinn í vélinni sem flytur hann yfir hafið í nótt gæti hann stytt sér stundir við að lesa um þetta í frægum leyniskjölum sem Wikileaks birtu. Þá er hins vegar hugsanlegt að honum yrði ekki svefnsamt.