Við hvað ertu svona hrædd/ur? – hafðu trú á sjálfum þér!

Við upplifum öll ótta og hræðslu reglulega í lífinu. Ef til vill ótta um að flugvélin hrapi, um að falla á prófinu, við geitunga, um að koma illa fyrir eða bara að bregðast öðrum eða standa okkur ekki í lífinu.  

En hvað er ótti (hræðsla) og hvernig leiðir hann til kvíða?

Það er ekki þannig að við fæðumst með ótta eða kvíða yfir ákveðnum hlutum eða atburðum í lífinu. Hinsvegar fæðumst við með óttaviðbragð og kvíðaviðbragð, hvað við gerum þegar þessi náttúrulegu viðbrögð eru ræst skiptir öllu máli. Mig langar að taka einfalt dæmi til þess að varpa ljósi á ferlið sem á sér stað milli óttaviðbragðs og kvíða. Jón sem er 8 ára er heima hjá vini sínum og lendir í því að hundur glefsar í hann í leik. Jón upplifir ótta og sýn hans á veruleikann og eigin getu breytist eftir þetta. Jón sem áður var mikið fyrir hunda og dýr er nú farinn að sýna forðandi hegðun með því að hætta að koma í heimsókn til vinar síns, með því að vera sífellt að líta aftur fyrir sig þegar hann er á gangi einhversstaðar, með því að kippast til af ótta þegar hundur geltir í hverfinu og hugsa ,,hvað ef hann er laus?”. Hegðun hans og hugsun hefur breyst. Öll þessi forðandi hegðun sendir undirmeðvitundinni ákveðin skilaboð um að hann ráði ekki við þessar aðstæður, að hann ráði ekki við að mæta ókunnugum hundi þrátt fyrir að þetta hafi ekki verið vandamál áður.

Hér er mjög svo neikvæður spírall farinn af stað. Forðandi hegðun er tilraun Jóns til þess að reyna að leysa vandamálið og þegar að vandamálið lagast ekki verður hegðun Jóns einungis meira forðandi og vandamálið verður sífellt meira yfirþyrmandi. Það sem Jón gerir þá, til þess að reyna að takast á við aðstæðurnar, er að „normalisera\" vandamálið og færir hann það þar með nær sjálfsmyndinni; hann segir mömmu sinni að hann sé nú hræddur við hunda og fer að gráta. Mamma hans sýnir honum eðlilega skilning og ýtir ekki á hann, sem er gott til þess að byrja með, en ekki til lengri tíma. Eina virkilega árangursríka leiðin til þess að komast yfir ótta og kvíða er nefninlega að mæta honum (í skynsamlegum skrefum). Forðandi hegðun er það sem styrkir, oft smávæginlegt vandamál til að byrja með, og gerir það að einhverskonar skrýmsli sem við teljum okkur ekki ráða við. Forðandi hegðun sendir undirmeðvitundinni skilaboð,  „Þú ræður ekki við þetta“. Á meðan þetta er í gangi „leyfir“ undirmeðvitundin Jóni ekki að hætta að vera hræddur við hunda.

Þegar Jón er orðinn 10 ára er hann farinn að segja öllum að hann sé hræddur við hunda, þetta séu óargadýr og eitt sinn hafi einn reynt að bíta af honum höndina. Hann upplifir stundum yfirgengilegan ótta og ef að Jón heldur þessari hegðun áfram er mjög líklegt að ótti við hunda verði hluti af sjálfsmynd Jóns og að hann verði þar með alltaf hræddur við hunda. Þetta mun hamla Jóni þar sem hann setur mikla orku í að spá í hvort það séu hundar nálægir og reglulega upplifir hann ótta ef hann rekst óvænt á hund þar sem hann átti ekki von á því. Þegar Jón er orðinn fullorðinn er þetta hluti af sjálfsmynd hans: Ég heiti Jón og mér finnst Pizza góð, ég elska bíómyndir og ég hata hunda!\".

Sjálfsmyndin

Sagan sem við segjum okkur sjálf um okkur sjálf, er svakalega mikilvæg. Hún býr til völlinn sem við svo spilum á, hún setur okkur mörk – hún afmarkar okkur.  Sjálfsmynd okkar er full af hugmyndum um okkur sjálf sem eru grafnar djúpt niðri og ná ekki endilega til meðvitundar okkar. Þessar hugmyndir takmarka okkur eða styðja.

Tökum eitt dæmi: Trúir þú því að það sé raunhæfur möguleiki fyrir þig að þéna 5 milljónir í mánaðarlaun einhvertíman í lífinu? Ef nei, afhverju ekki? Þú ert kanski með einhverjar hugmyndir í kollinum um að þú sért ekki í þannig vinnu eða að þú sért ekki með rétta menntun eða eitthvað þar fram eftir götunum. Ef til vill eru þetta góðar og gildar og skynsamlegar ályktanir hjá þér en flestir setja sér ekki þennan ramma meðvitað.  Flestir taka ekki meðvitaða ákvörðun um að útiloka þennan möguleika úr eigin sjálfsmynd heldur gerir undirmeðvitundin það, hún getur dregið ályktanir líka sjáiði til. Sjálfsmyndin er eins og nokkurskonar innra kort yfir það sem við getum og getum ekki, hvernig við erum og hvernig við erum ekki. Þekkjum við þetta kort nógu vel?

Þetta dæmi um tekjumöguleika er bara eitt dæmi um hvernig sjálfsmyndin þrengir niður og takmarkar fólk við ákveðin leikvöll, við ákveðnar spilareglur í lífinu. Ef maður trúir því ekki sjálfur að maður geti orðið auðugur og vel stæður þá verður maður það líklegast aldrei, en ef maður trúir því, þá kemst maður að öllum líkndum eitthvað nær því eða hvað? 

Er stórmál að vera hræddur við hunda? – Nei, það er ekki punkturinn

Í þessum pistli ákvað ég nota hræðslu við hunda sem dæmi um hvernig ótti getur þróast, stigmagnast og styrkst og orðið hluti af sjálfsmynd fólks. Það væri alveg hægt að skipta þessu dæmi út fyrir til dæmis óttan við að koma fram eða að tala uppi í pontu. Það er mjög algengt að ótti við slíkt hefjist í grunnskóla og fylgi fólki alveg í gegnum framhaldsskóla, jafnvel háskóla og síðan vinnu og fullorðins ár. Fólk hringir sig inn veikt, mætir ekki, fær aðra til þess að kynna o.s.frv. (forðandi hegðun). Þetta hamlar síðan fólki gífurlega og getur valdið vanlíðan og kvíða. Hvaða skilaboð fær undirmeðvitundin á meðan? – „Ég er ekki nógu góður, ég get ekki það sem hinir geta”.

Ég er ekki að segja að allir séu eins eða að allir eigi að vera jafn góðir í öllu. Það sem ég er að reyna að benda á er hvað forðandi hegðun, undirmeðvitundin og sjálfsmyndin spila stórt hlutverk í lífi fólks. Oft verður lítill snjóbolti sem byrjar að rúlla þegar við erum börn að risastórum þegar við erum orðin fullorðin. Hvorn haldið þið að sé auðeldara að stoppa? Veltiði þessu aðeins fyrir ykkur. Hvaða hugmyndir hef ég um mig? Hvaða sögu er ég að segja sjálfum mér? Því sú saga mun að öllum líkindum rætast að öllu óbreyttu. 

Það er ekkert óeðlilegt við ótta eða kvíða heldur er það forðandi hegðun til lengri tíma sem býr til vandamál og kvíða og grefur undan sjálfstrausti fólks. Manneskja með félagskvíða mun ekki losna við hann nema með því að fara á meðal fólks, alveg eins og manneskja með flughræðslu mun ekki komast yfir sinn ótta nema með því að fljúga (helst oft á stuttum tíma). Andstæðan við forðandi hegðun er hlaupa að vandamálinu og sjá svo: „sko, ég get þetta! Eins og allir aðrir!” – Þá er hálfur sigurinn unninn og kvíðinn mun minnka með tímanum.  

 

Það er ekkert að óttast, nema óttan sjálfan.