Við hendum þriðjungi innkaupanna

Sóun í allri sinni mynd var á meðal umfjöllunarefna sjónvarpsþáttarins Heimilisins á Hringbraut í gærkvöld, en hann fjallar öðru fremur um rekstur, viðhald og öryggi heimilisins og raunar allt sem lítur að heimilishaldi.

Rakel Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturports, er meðal gesta þáttarins sem nú er hægt að sjá á vef stöðvarinnar, en hún hefur vakið mikla athygli á síðustu árum fyrir að berjast fyrir nýtni og sparsemi, en matarsóun og raunar bruðl og ógegnd af öllu tagi er sem eitur í hennar beinum.

Í samtali sínu við Sigmund Erni minnir hún á að meðaltalstölur gefi til kynna að hvert heimili hendi um og yfir þriðjungi matarinnkaupanna, sem er auðvitað dágóður peningur þegar saman safnast; ef heimilisinnkaupin eru 100 þúsund krónur á mánuði fer nærri 35 þúsund kall út um gluggann, eða rífur 400 þúsund kall á ári, en það er ágætur fjölskyldubíll á áratug.

Þá er ónefnd eyðslusemi fólks í föt og skó sem oft og tíðum er úr hófi fram, svo vellur út úr hverjum skáp og geymslu, enda er ekki óalgengt að fólk fari á hverju ári með heilu og hálfu ruslapokana af ónotuðum fötum á haugana eða í endurvinnslu.

Í þættinum lýsir Rakel því hvernig hún fór að því að taka sér tak í þessum efnum, en það er einka áhugavert að heyra af hennar reynslu í þeim efnum.

Heimilið verður endursýnt um helgina, en þar er einnig fjallað um fasteignamarkaðinn, sláturgerð, tryggingar og öruggan akstur í hálku, auk þess sem Harðviðarval er sótt heim í vörukynningu vikunnar.