Á þeim örlagatímum sem við lifum núna vegna innrásar Rússa í Úkraníu er ekki úr vegi að staldra við og velta fyrir sér stöðu Íslands, dvergríkisins, sem telur 380.000 íbúa.
Við erum hluti af NATO og við leggjum áherslu á að við stöndum með risaveldunum sem bera uppi þetta hernaðarbandalag. Sumum þykir hjákátlegt að við séum að skipta okkur af þróun mála, vopnlaus dvergþjóð. En lítið framlag okkar skiptir samt máli. Við höfum rödd og þurfum að láta hana heyrast. Við erum svo lítil að enginn óttast okkur en við erum frjáls og fullvalda lýðræðisþjóð og því getur skoðun okkar skipt máli.
Í ljósi þessa er óhætt að rifja upp að það er með ólíkindum hve marga afburða einstaklinga við höfum átt hér á landi síðustu áratugina þrátt fyrir fámennið. Hér verða nefnd fáein dæmi um afreksfólk á sínu sviði:
Vigdís Finnbogadóttir var fyrsta konan til að ná kjöri sem lýðræðislegur þjóðarleiðtogi á Vesturlöndum. Það er fordæmi og afrek sem sannarlega kom Íslandi á kortið í jákvæðum skilningi.
Við höfum státað af listamönnum í heimsklassa. Þar mætti nefna Halldór Laxness, Björk Guðmundsdóttur, Kristján Jóhannsson, Kristinn Sigmundsson og kvikmyndaleikstjórann Baltasar Kormák.
Nefna má íþróttamenn í fremstu röð eins og Albert Guðmundsson, Ásgeir Sigurvinsson, Söru Björk Guðmundsdóttur, Ólaf Stefánsson og Eið Smára Guðjohnsen sem lék knattspyrnu bæði með Chelsea og Basrcelona.
Þá er vert að nefna tvo yfirburðamenn í heimsklassa á viðskiptasviðinu, þá Björgólf Thor Björgólfsson og Kára Stefánsson.
Loks eru nefndir þeir sem hafa sýnt snilli sína á sviði stjórnmálanna. Það eru þeir Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson (eldri) og Hermann Jónasson frá síðustu öld og loks Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem er vonandi rétt að byrja sem forystumaður í íslenskum stjórnmálum þó að hann hafi setið tuttugu ár í borgarstjórn, þar af átta ár sem borgarstjóri.
Dagur er samt enn ekki orðinn fimmtugur. Vænta má þess að innan fárra ára muni hann leiða ríkisstjórn annarra flokka en þeirra sem nú sitja við völd og viðhalda kyrrstöðu á öllum sviðum íslenskra þjóðmála.
- Ólafur Arnarson