Nýtt nafn hefur nú dúkkað upp í umræðunni um mögulegan arftaka Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Kandídatinn þekkir vel til SA og kjarasamninga og þykir mannasættir, sem getur verið mikilvægt nú þegar upplausn er í verkalýðshreyfingunni.
Í lok síðasta mánaðar var tilkynnt að Halldór Benjamín Þorbergsson láti senn af störfum sem framkvæmdastjóri SA og taki við sem forstjóri Regins hf. snemma í sumar.
Ljóst er að SA þurfa nú að finna nýjan framkvæmdastjóra. Þrjú nöfn hafa mikið heyrst í tengslum við starfið. Allt eru það konur. Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, þykir koma til greina í starfið en náinn skyldleiki hennar við Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins þykir heldur vinna gegn henni, en þau Bjarni eru bræðrabörn. Einhverjir innan stjórnar SA munu hafa áhyggjur af því að slík tengsl við flokkinn muni síður en svo greiða fyrir kjarasamningum.
Þá hefur nafn Svanhildar Hólm, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, verið nefnd, en hún hefur líka mjög tengd Bjarna og var meðal annars aðstoðarmaður hans í áratug. Hefur fólk því staðnæmst við nafn Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Heiðrún hefur óneitanlega mikil tengsl við Sjálfstæðisflokkinn hefur þó ekki nánar tengingar við formann flokksins.
Einhverjir hafa áhyggjur af því að herskár stíll Heiðrúnar sé ekki til þess fallinn að stuðla að framgangi kjaraviðræðna. Málflutningur hennar þykir full beinskeyttur og óvíst að hann falli í góðan jarðveg hjá forystu verkalýðshreyfingarnar.
Eykur það enn vandann að forystumál innan verkalýðshreyfingarinnar eru í nokkrum ólestri. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sýnt að hún kýs átök fremur en sættir og hyggst nú reyna að draga Eflingu út úr Starfsgreinasambandinu. Gangi það eftir mun það ekki greiða fyrir komandi kjarasamningum síðar á þessu ári. Fari Efling út úr SGS þýðir það sjálfkrafa að Efling stendur utan Alþýðusambands Íslands og þarf að sækja sérstaklega um beina aðild vilji félagið vera áfram innan ASÍ.
Alvarlegur forystuvandi er innan ASÍ. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ætlar ekki að bjóða sig fram til forseta og heldur ekki Sólveig Anna. Þá hefur Kristján Þórður Snæbjarnarson, starfandi forseti ASÍ, lýst því yfir að hann muni ekki sækjast eftir embættinu.
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Verkalýðsfélags Akraness, er sagður hafa minni en engan áhuga á að setjast í forsetastól í ASÍ og því er ljóst að forystuvandi sambandsins er alvarlegur og illleysanlegur.
Allt bendir því til þess að verkalýðshreyfingin verði höfuðlaus her þegar kjaraviðræður hefjast síðar á þessu ári. Þetta er ekki staða sem sem forystu SA hugnast. Miklu máli skiptir því að eftirmaður Halldórs Benjamíns verði einstaklingur sem vinnur vel með samherjum og geti byggt upp traust viðsemjenda SA.
Allra síðustu daga hefur nýtt nafn heyrst æ oftar í tengslum við framkvæmdastjórastöðu SA. Um er að ræða Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóra Laxa fiskeldis. Jens er fyrrverandi varaformaður SA og þekkir því samtökin vel. Hann var einnig fyrsti formaður SFS og þekkir vel til kjarasamninga, en hann var í forystu þegar samið var við sjómenn eftir margra vikna verkfall árið 2017.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um eftirmann Halldórs Benjamíns, stungið hafi verið upp á ýmsum nöfnum. „Þetta kom upp rétt fyrir páska og er á byrjunarreit,“ segir Eyjólfur. Hann segir Halldór Benjamín ekki vera á förum strax og að stjórn SA muni vanda valið og finna rétta aðilann í starfið, karl eða konu.