Nú þegar kjöri helmings stjórnarmanna í VR, fjölmennasta launþegafélagi landsins, er að ljúka stefnir allt í að innan við tíundi hver félagsmaður kjósi. Stjórnarmenn sem fyrir sitja og voru kosnir í fyrra hafa alls ekki sterkara umboð.
Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins er margreyndur í bæði verkalýðsmálum og stjórnmálum. Hann spáir Hörðum átökum á vinnumarkaði næsta vetur þegar samningar verða lausir og í loftinu liggur (sbr yfirlýsingar nokkurra áköfustu verkalýðsforkólfanna) að verkföll verði boðuð.
Guðmundur er eins og áður sagði margreyndur og bendir raunar á eitt mikilvægt atriði, sem RÚV hefur eftir honum úr Silfrinu á sunnudaginn: „Það er nú oft þannig að þeir sem hafa hæst, þegar þeir komast inn í karphúsið þá eru það þeir sem tala minnst. Það er ekki alveg að marka hvað menn hrópa á torgum og þegar þeir eru komnir ofan í djúpu laugina.“
Þetta minnir á máltækið „þeir gösla mest sem grynnst vaða“ og kannski þessir foringjar reki sig á hinn harða veruleika kjarabaráttunnar þegar þeir koma í Karphúsið: Stórar og feitar launahækkanir eru aldeilis ekki auðsóttar frá launagreiðendum nú frekar en endranær! Og gera má fastlega ráð fyrir að launagreiðendur nýti sér út í ystu æsar umboðsleysi verkalýðsforkólfanna sem yfirleitt eru ekki studdir af meira en tíunda hverjum félagsmanni, þannig fékk Ragnar Þór formaður VR stuðning um 10% félagsmanna til formennsku sinnar og hvað fékk Sólveig Anna í Eflingu? Hún náði ekki miklu hærra með sinn stuðning.
Umboðslausir hyggjast þessir formenn etja félagsmönnum sínum út í verkföll sem allir tapa á líkt og í fyrri verkföllum. En, nú þegar eru þeir og helstu fylgjendur þeirra farnir að tromma upp verkfallataktinn, ófriður skal ríkja á vinnumarkaði! Og, fjölmiðlarnir gæta þess vandlega að tala ekki um áhugaleysi félagsmanna á að kjósa forystu félanna, heldur tala eingöngu um hlutfall af greiddum atkvæðum: Þannig tekst þeim að slá ryki í augu fólks til að telja því trú um að foringjarnir hafi verið kosnir með miklum yfirburðum, 60-80% fylgi á meðan raunfylgið er ekki nema um og rétt yfir 10%.
Rtá